Ríkisstjórn Jacindu Ardern hefur lagt til að réttur kvenna til þungunarrofs verði rýmkaður töluvert. Núgildandi lög í landinu kveða á um að konur megi einungis undirgangast þungunarrof ef tveir læknar samþykkja það og meðgangan er talin ógna heilsu þeirra eða lífi.
Í frétt BBC kemur fram að núgildandi lög séu frá árinu 1977 og hafa staðið óbreytt síðan. Núverandi ríkisstjórn, samsteypustjórn Verkamannaflokks Ardern og þjóðernisflokksins Nýja-Sjáland fyrst með stuðningi Græningja, hefur ekki verið samstíga varðandi breytingarnar en Ardern á von á því að málið verði afgreitt fljótlega.
Breytingarnar verða lagðar fyrir þingið í fyrsta sinn næstkomandi fimmtudag og verður málið afgreitt sem „samviskumál“, sem þýðir að þingmenn þurfi ekki að greiða atkvæði eftir flokkslínum heldur eftir eigin samvisku.
Verði breytingarnar samþykktar geta konur farið í þungunarrof allt að 20. viku meðgöngu og þurfa ekki samþykki né skoðun heilbrigðisstarfsmanna. Viðeigandi stofnanir þurfa þó að bjóða konunum ráðgjöf og eftir 20. viku verður þungunarrof ekki framkvæmt nema heilbrigðisstarfsmenn votti fyrir að andlegt og líkamlegt heilbrigði konunnar sé fullnægjandi fyrir slíka aðgerð.
Í breytingunum er einnig gert ráð fyrir því að svæðin í kringum þær stofnanir sem framkvæmda þungunarrof verði „örugg svæði“ til þess að koma í veg fyrir að andstæðingar þungunarrofs geti mótmælt og áreitt þær konur sem kjósa að undirgangast slíka aðgerð.
Dómsmálaráðherra Nýja-Sjálands, Andrew Little, segir breytingarnar vera tímabærar og það eigi að líta á þungunarrof sem grundvallarheilbrigðismál.
„Kona hefur fullan rétt til þess að ákveða hvað er gert við líkama hennar,“ sagði Little.
