Neytendastofa hefur lagt 400 þúsund króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið Wedo ehf., rekstraraðila vefverslunarinnar Heimkaupa, fyrir að birta auglýsingar um „Tax Free“ afslátt án þess að tilgreina prósentuhlutfall afsláttarins. Heimkaup gerðust sek um sambærilegt brot á auglýsingalögum í fyrra.
Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að Heimkaup segi þetta hafa verið mistök. „Fyrirtækið viti fullvel að geta þurfi prósentuhlutfall afsláttar þegar orðið Tax Free sé notað og leggi það mikla áherslu á að gera það í öllu markaðsefni en hér hafi það hreinlega farist fyrir,“ eins og segir í ákvörðunni.
Fyrir mistök hafi láðst að setja setja staðlaða setningu, sem notuð væri á öllum Tax Free tilboðsdögum, á hluta af auglýsinga frá Heimkaupum: „Tax Free jafngildir 19% afslætti. Heimkaup.is stendur að sjálfsögðu skil á virðisaukanum“.
Í ljósi þess að Heimkaup hafði með þessu brotið gegn fyrri ákvörðunum Neytendastofu taldi stofnunin nauðsynlegt að sekta félagið.
„Með vísan til alls framangreinds og að teknu tilliti til umfangs brotsins, fyrri ákvarðana stofnunarinnar og jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga telur Neytendastofa hæfilegt að leggja á Wedo ehf. stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 400.000.“
Ákvörðun Neytendastofu má nálgast í heild sinni hér.
Viðskipti innlent