Rúmlega þrjátíu eru látnir eftir að uppreisnarmenn Húta í Jemen réðust á hersýningu í Aden með flugskeytum og drónum í dag. Árásin beindist að hersveitum sem Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabía styðja gegn Hútum.
Maeen Abdulmalik Saeed, forsætisráðherra Jemens, sakaði Írani um að standa að árásinni á hersýninguna og sprengitilræði við lögreglustöð í borginni í dag. Hútar sem lýstu yfir ábyrgð á árásinni á hersýninguna eru hallir undir Íran, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sendifulltrúi Sáda í Jemen tók undir ásökun forsætisráðherrans.
Læknar án landamæra segja að tíu manns hafi látið lífið í sprengingunni við lögreglustöðina. Engin hefur lýst ábyrgð á því tilræði en hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hafa staðið fyrir svipuðum árásum.
Íranir hafa neitað því að eiga aðild að átökunum í Jemen. Sádar leiddu bandalag súnnímúslima sem hlutaðist til í átökunum árið 2015 til að endurreisa ríkisstjórnina sem Hútar steyptu af stóli síðla árs 2014.
