Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Víkingur 1-0 | Kristján Flóki kom KR-ingum aftur á sigurbraut

Skúli Arnarson skrifar
Kristján Flóki skoraði eina mark leiksins.
Kristján Flóki skoraði eina mark leiksins. vísir/bára
Það viðraði vel í Vesturbænum þegar KR sigruðu Víking Reykjavík með einu marki gegn engu í 17.umferð Pepsi max deildar karla í kvöld. Fyrir leik kvöldsins var Víkingur í tíunda sæti með 19 stig á meðan KR sátu á toppnum með nokkuð þæginlega sjö stiga forystu. Bæði lið spiluðu leiki í bikarnum í síðastliðinni viku og virtist vera sem þeir leikir sætu aðeins í leikmönnum beggja liða í dag.

Leikurinn fór rólega af stað og það var ekki fyrr en á 16.mínútu leiksins sem eitthvað markvert gerðist, en þá átti Óskar Örn frábæran sprett sem endaði með flottu skoti sem hafnaði í samskeytunum en inn vildi boltinn ekki. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Á 33.mínútu rann bakvörður KR, Kennie Chopart illa og þurfti KR að gera breytingu á sínu liði.

Undir lok fyrri hálfleiks lágu Víkingar á KR og fengu meðan annars fjórar hornspyrnur í röð. Í kjölfarið á því komst KR í hraða sókn sem endaði með því að Kristján Flóki var sloppinn einn innfyrir og lagði hann boltann snyrtilega framhjá Þórði Ingasyni í marki Víkings. KR fóru því til búningsherbergja með 1-0 forystu.

Seinni hálfleikur var tíðindalítill. KR voru þéttir til baka á meðan Víkingar reyndu að opna vörn KR. Besta færi seinni hálfleiks kom á síðustu andartökum leiksins þegar Óskar Örn átti frábært skot sem Þórður Ingason varði stórkostlega.

Þessi úrslit þýða það að KR ná tíu stiga forystu á Breiðablik sem sitja í öðru sæti. Breiðablik geta þó minnkað bilið aftur niður í sjö stig með sigri á Val í kvöld. Víkingar sitja enn í tíunda sæti með 19 stig.

Af hverju vann KR?

KR voru örlítið beittari en Víkingar í kvöld. Þrátt fyrir að Víkingar hafi náð góðum spilköflum og hafi jafnvel verið betri heilt yfir í seinni hálfleik þá sköpuðu þeir sér einfaldlega ekki nóg til að sigra knattspyrnuleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Óskar Örn var, líkt og oft áður, besti maður vallarins í kvöld. Hann var ógnandi þegar hann fékk boltann og hefði með smá heppni getað sett tvö mörk í kvöld. Varnarlína KR var í heild sinni flott og varnarlína Víkings var í raun og veru flott líka.

Hvað gekk illa?

Eins og áður segir þá gekk fremstu mönnum Víkings illa að skapa sér færi í leiknum. Það vantaði hugmyndarflug í fremstu menn en aftur á móti verður að segjast að KR voru gífurlega þéttir til baka og vörðust mjög vel.

Hvað gerist næst?

KR fara norður og spila við KA í næstu umferð á meðan Víkingur fær Grindvíkinga í heimsókn. Það er ljóst að leikurinn í Fossvoginum verður upp á líf og dauða því bæði lið eru í fallbaráttu.

Rúnar var ánægður með úrslitin en ekki með frammistöðu sinna manna.vísir/bára
Rúnar: Þurftum eiginlega þrjú stig í dag

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum ánægður í leikslok.

„Það er bara léttir að fá þrjú stig. Þetta var erfiður leikur og við erum búnir að tapa síðustu tveimur leikjum. Við þurftum eiginlega að ná í þrjú stig í dag til að missa ekki niður allt sjálfstraust og að þetta færi að verða eitthvað erfitt hjá okkur. Þetta var ekki fallegur fótboltaleikur en stigin eru okkar og við erum ánægðir með það.

Rúnar var ekkert alltof ánægður með spilamennsku sinna manna en hrósar þó Víkingi.

„Það var smá stress í þessu og lélegur fótboltaleikur af okkar hálfu. Við vorum þéttir og gáfum fá færi á okkur. Víkingar eru mjög góðir og þeir reyna að spila út úr öllum aðstæðum sem getur verið erfitt að spila við.“

KR urðu fyrir áfalli í fyrri hálfleik þegar bakvörðurinn Kennie Chopart var borinn af velli.

„Kennie fékk mikið högg á mjöðmina og var kvalinn en það er of snemmt að segja til um hvað þetta sé nákvæmlega. Við erum með fínan og breiðan hóp. Það eru allir tilbúnir að mæta inná og leggja sig alla fram. Við þurftum á því að halda í dag því við erum búnir að fá á okkur átta mörk í síðustu þremur leikjum.“

KR eru með tíu stiga forystu eftir leikinn í kvöld sem Blikar geta þó minnkað niður í sjö. Rúnar segir bikarinn langt því frá kominn í Vesturbæinn.

„Ef við hefðum tapað í kvöld þá hefði munurinn bara verið fjögur stig svo þetta er langt því frá að vera komið. Við eigum eftir að spila fimm leiki sem þýðir að það eru fimmtán stig í pottinum. Við erum ánægðir með það sem við erum að gera og við þurfum að hugsa um okkur sjálfa. Við þurfum bara að einblína á það. Kannski höfum við misst aðeins fókus síðustu vikur og fyrir vikið erum við aðeins búnir að gefa eftir.“

Arnar sagði að bikarleikurinn gegn Breiðabliki hefði setið í sínum mönnum.vísir/bára
Arnar: Vantaði 5% á öllum sviðum í fyrri hálfleik

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var svekktur að fá ekkert út úr leiknum í kvöld. Honum fannst bikarleikirnir í vikunni hafa setið í mönnum.

„Þetta er bara svekkjandi. Okkur vantaði 5% á öllum sviðum í fyrri hálfleik. KR voru aggresívari og sterkari heilt yfir. Mér fannst samt óþarfi að fá á okkur þetta mark í lok fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik vorum við betri með boltann en náðum ekki að skapa okkur neitt af viti. Mér fannst vera smá bikarþynnka í báðum liðum og það vantaði gæðin sem maður sá hjá báðum liðum í bikarleikjunum.“

KR skoruðu á 43.mínútu og voru eftir það gífurlega þéttir. Arnari fannst vantar meiri klókindi í sína menn.

„KR er með gífurlegt „know how“ í sínu liði og vita hvernig á að vinna leiki. Um leið og þeir náðu forskoti þá var erfitt að brjóta þá á bak aftur. Við þurftum bara að vera klókari á síðasta þriðjung.“

Það vakti athygli að Arnar gerði tvær breytingar á sínu liði í hálfleik. 

„Halli var meiddur en svo var þetta taktískt með Kwame. Hann var ekkert búinn að vera neitt slakari en hver annar en ég vildi bara fá ferskari lappir inn. Það gekk svosem ágætlega, seinni hálfleikurinn var eign okkar án þess þó að við höfum náð að skapa neitt.“ 

Það brutust út gífurleg fagnaðarlæti þegar Víkingur tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum í bikarnum í vikunni. Arnar segir að það hafi verið miklar tilfinningar í þeim leik.

„Bikarleikurinn í vikunni var mjög tilfinningaríkur leikur og tók á bæði líkamlega og andlega. Það tók 45 mínútur í dag að fatta það að við vorum að spila við toppliðið í deildinni.“

Víkingur mætir Grindavík í næsta leik sem er gífurlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið.

„Við þurfum að ná upp ákefðinni sem við vorum með í leiknum við Blika í bikarnum til þess að vinna þessa leiki.“

Arnór Sveinn átti fínan leik í vörn KR.vísir/bára
Arnór Sveinn: Höldum okkur bara á jörðinni

„Ég er mjög glaður. Það er gaman að fá þrjú stig, gaman að vinna, gaman þegar andinn er svona góður,“ sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson, miðvörður KR, að leik loknum.

KR hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld. Arnór segir að liðið hafi í rauninni ekki gert neinar breytingar.

„Við breyttum þannig séð engu. Við þurftum bara að halda áfram. Úrslit eru bara afleiðing af því sem maður leggur í þetta og við héldum bara áfram að leggja okkur fram og nálguðumst þennan leik bara eins og aðra leiki.“

Arnór var gífurlega glaður að halda hreinu í kvöld.

„Fyrir varnarmann að halda hreinu er bara eins og fyrir sóknarmenn að skora. Við vorum mjög þéttir en við vorum samt að pressa á þá og gáfum þeim enga sénsa að ná upp spili.“

KR eru komnir í ansi vænlega stöðu á toppi deildarinnar. Arnór er þó jarðbundinn.

„Þetta er bara halda áfram. Maður þarf bara að tikka í öll boxin og gera allt sem maður gerir vanalega. Við höldum okkur bara á jörðinni. Þetta eru bara stig sem maður safnar í poka og svo sjáum við hvað gerist í lokin.“

Kári vildi ekki nota bikarleikinn gegn Blikum sem afsökun fyrir tapinu í kvöld.vísir/daníel
Kári: Auðvelt að benda á bikarleikinn

„Þetta var bara leikur tveggja hálfleikja. Í fyrri hálfleik vorum við bara daprir í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik náðum við að bæta okkur,“ sagði Kári Árnason að leik loknum.

Líkt og Arnar benti Kári á það að KR séu gífurlega reynslumikið lið sem kann að vinna leiki.  

„Þeir eru náttúrulega með lið á góðum aldri, í kringum þrítugt, og þeir kunna bara að vinna leiki. Þeir skora eitt og svo verja þeir markið vel.“

Kári vildi ekki nota bikarleikinn sem afsökun.

„Auðvitað er auðvelt að benda á það að menn hafi verið að missa sig í gleðinni í vikunni. Það er samt engin afsökun. Við töluðum um það fyrir leik að við þyrftum að mæta klárir og að þeir myndu koma út og pressa á okkur. Þetta er klaufalegt mark sem við fáum á okkur og ef við hefðum farið inn í klefa með stöðuna 0-0 þá hefði þetta verið allt annað.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira