Enski boltinn

Lampard: Liverpool er með eitt besta lið í heimi og við áttum að vinna þá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard tekur boltann eftir baráttu á milli Andy Robertson og Cesar Azpilicueta.
Frank Lampard tekur boltann eftir baráttu á milli Andy Robertson og Cesar Azpilicueta. Getty/Gonzalo Arroyo
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, hitti blaðamenn í dag fyrir leik liðsins á móti Leicester City á sunnudaginn.

Chelsea steinlá 4-0 á móti Manchester United í fyrstu umferð en sýndi allt aðra og betri frammistöðu á móti Liverpool í leiknum um Ofurbikar UEFA á miðvikudagskvöldið.

„Við fengum ekki á okkur jafnmörg mörk og á móti United. Það voru samt góðir kaflar í leiknum á móti Manchester United. Við verðum að læra af okkar mistökum í þessum leikjum,“ sagði Frank Lampard.

„ Liverpool er eitt besta lið í heimi og við áttum að vinna þá. Við hreyfðum boltann vel og sköpuðum færi,“ sagði Lampard.

„Við töpuðum þessum leik í vítakeppni en áttum að vinna leikinn sjálfan. Það sem er mikilvægast núna er hvernig við bregðumst núna við og við erum að elta fyrstu þrjú stigin okkar á tímabilinu,“ sagði Lampard.

„Það hefði vissulega verið betra að spila ekki 120 mínútur en svona fór það. Við fáum aukadag því leikurinn er ekki fyrr en á sunnudaginn. Leikmenn eru meira í endurheimt en að æfa,“ sagði Lampard.

„Þessi leikur á móti Leicester er stór leikur fyrir okkur fyrir framan okkar stuðningsmenn. Brendan er með samansafn af góðum leikmönnum í sínu liði,“ sagði Lampard.

Frank Lampard og Jürgen Klopp.Getty/Matthew Ashton



Fleiri fréttir

Sjá meira


×