Erlent

Sala og flugmaðurinn urðu fyrir gaseitrun

Kjartan Kjartansson skrifar
Sala var dýrasti leikmaður sem Cardiff hafði keypt. Hann komst hins vegar aldrei yfir Ermarsundið frá Frakklandi.
Sala var dýrasti leikmaður sem Cardiff hafði keypt. Hann komst hins vegar aldrei yfir Ermarsundið frá Frakklandi. Vísir/EPA
Argentínski knattspyrnumaðurinn Emiliano Sala og breskur flugmaður önduðu að sér miklu magni kolmónoxíðs áður en flugvél þeirra hrapaði í Ermarsund í janúar. Rannsókn leiddi í ljós að styrku kolmónoxíðs í blóði Sala var svo hár að hann hefði getað fengið flog, misst meðvitund eða fengið hjartaáfall.

Sala og flugmaðurinn David Ibbotson fórust með lítilli flugvél 21. janúar. Knattspyrnumaðurinn var á leið frá Nantes í Frakklandi til Cardiff í Wales þangað sem hann hafði verið seldur.

Eiturefnagreining á líki Sala leiddi í ljós gaseitrunina en lík Ibbotson hefur ekki fundist, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Allar líkur eru þó taldar á að flugmaðurinn hafi orðið fyrir sömu eitrun. Styrkur kolmónoxíðs í blóði Sala mældist 58%. Rannsóknarnefnd flugslysa á Bretlandi segir að styrkur yfir 50% sé vanalega banvænn fyrir fólk sem er að öðru leyti heilsuhraust.

Rannsókn slyssins beinist nú að því hvernig kolmónoxíðleki gæti hafa komið upp inni í flugvélinni. Fjölskylda Sala telur niðurstöðuna kalla á ítarlega tæknilega rannsókn á flugvélinni sjálfri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×