Enski boltinn

Hringdi í Harry Maguire og reyndi að biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire í fyrsta leiknum með Manchester United.
Harry Maguire í fyrsta leiknum með Manchester United. Getty/Matthew Ashton
Knattspyrnusérfræðingur Sky Sports og fyrrum stórstjarna Arsenal sér eftir því að hafa gagnrýnt Harry Maguire fyrir að hafa viljað fara til Manchester United.

Harry Maguire lék sinn fyrsta leik með Manchester United um síðustu helgi þegar United menn unnu 4-0 sigur á Chelsea. United hélt aðeins sjö sinnum marki sínu hreinu á síðustu leiktíð.

Nokkrum dögum áður hafði Manchester United gert Maguire að dýrasta varnarmanni heims eftir að hafa keypt hann á 80 milljónir punda frá Leicester City.

Paul Merson er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Arsenal á árunum 1985 til 1997 en hann varð tvisvar enskur meistari með félaginu og skoraði alls 78 mörk í 327 leikjum fyrir Arsenal.





Merson gagnrýndi þessa ákvörðun Maguire harðlega og kallaði hana fáránlega. „Maguire fyrir 80 milljónir er eins fáránlegt og það getur orðið,“ sagði Paul Merson fyrir leik Manchester United og Chelsea.

Nú er komið allt annað hljóð í hann.

„Ég sýndi honum ekki nógu mikla virðingu um daginn. Hann hefur spilað í undanúrslitum á HM, hann er landsliðsmaður og ég var í ruglinu og er fyrstur til að viðurkenna það,“ sagði Paul Merson.

„Menn mega samt ekki gleyma því að þegar hann spilaði fyrir Leicester þá duttu þeir aftur á völlinn og vörðust á vítateigslínunni með ekkert pláss á bak við sig. Nú er hann að spila á miðjulínunni hjá Manchester United og þá er hann að fá bolta inn fyrir sig á eldfljóta menn eins og Pierre-Emerick Aubameyang hjá Arsenal og Sergio Aguero hjá Manchester City,“ sagði Merson.





„Hann hefur samt mjög sterka nærveru, skipar mönnum til og er ekkert að fíflast. Mér fannst hann spila þennan fyrsta leik mjög vel,“ sagði Merson.

„Mér fannst ég vera of harður í gagnrýninni á laugardaginn ef ég segi alveg eins og er. Ég reyndi að ná í hann á mánudaginn og ég mun tala við hann á morgun því hann sendi mér skilaboð til baka,“ sagði Merson.

„Það sem ég ætlaði að segja kom ekki nógu vel út,“ sagði Merson en það má heyra hann tala um Harry Maguire hér að neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×