Enski boltinn

Búinn að skora mark í fjórum efstu deildunum í Englandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Billy Sharp fagnar markinu sínu.
Billy Sharp fagnar markinu sínu. Getty/Michael Steele
Billy Sharp var ekki lengi að koma sér á blað í ensku úrvalsdeildinni um helgina og markið hans tryggði nýliðum Sheffield United stig á móti Bournemouth í fyrsta leik.

Billy Sharp kom inn á sem varamaður á 82. mínútu og jafnaði metin í 1-1 aðeins sex mínútum síðar.

Billy Sharp hefur þar með skorað mark í fjórum efstu deildunum á Englandi. Hann lék í D-deildinni með Rushden & Diamonds fyrir fimmtán árum en hefur lengstum spilað í B- og C-deildinni.





Billy Sharp hafði spilað tvo leiki fyrir Southampton tímabilið 2012-13 eftir að hafa hjálpað liðinu upp um deild veturinn á undan. Tækifærin voru hins vegar fá og hann var lánaður til tveggja b-deildarliða tímabilið 2013-14.

Eftir eitt tímabil með Leeds United (2014-15) þá var hann seldur til Sheffield United þar sem hann hefur spilað síðan. Þetta var í þriðja skiptið sem hann kom til félagsins eftir að hafa byrjað feril sin þar 2004-05 og einnig spilað þar frá 2007 til 2009.

Sheffield United var í ensku C-deildinni þegar liðið keypti Billy Sharp aftur en síðan þá hefur Sharp skotið liðinu bókstaflega upp um tvær deildir á þremur árum.

Hann skoraði 30 mörk í 46 leikjum þegar Sheffield United fór upp úr C-deildinni 2016-17 og var síðan með 23 mörk í 40 leikjum í ensku b-deildinni í fyrra. hann var valinn í lið ársins bæði tímabilin.

Billy Sharp þurfti samt að sætta sig við það að vera á varamannabekknum í fyrsta úrvalsdeildarleik Sheffield United í rúm tólf ár. Hann var aftur á móti ekki lengi að stimpla sig inn þegar hann fékk loks tækifærið átta mínútum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×