Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Breiðablik 2-4 | Frábær endurkoma Blika í Kaplakrika

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Breiðablik fagnar marki.
Breiðablik fagnar marki. vísir/bára
Breiðablik lagði FH í hreint út sagt ótrúlegum knattspyrnuleik í Kaplakrika í kvöld. Lokatölur 4-2 þar sem gestirnir úr Kópavogi voru 2-0 undir eftir aðeins 17. mínútur. Steven Lennon og Atli Guðnason með mörk heimamanna.

 

Viktor Örn Margeirsson minnkaði muninn fyrir heimamenn og staðan 2-1 FH í vil í hálfleik. Snemma í síðari hálfleik fékk Davíð Þór Viðarsson beint rautt spjald og átta mínútum síðar var staðan orðin 3-2 eftir mörk frá Höskuldi Gunnlaugssyni og Thomas Mikkelsen.

 

Sá danski var svo aftur á ferðinni á 72. mínútu og þar við sat. Lokatölur 4-2 Blikum í vil sem sitja áfram í 2. sæti deildarinnar en FH er nú fimm stigum á eftir þeim í 4. sæti deildarinnar þegar þetta er skrifað.

 

Kaflaskiptur fyrri hálfleikur

Fyrri hálfleikur byrjaði mjög fjörlega og eftir aðeins sjö mínútur bjargaði Guðmundur Kristjánsson á línu fyrir heimamenn eftir að Daði Freyr Arnarsson hafði varið frá Höskuldi. Guðjón Pétur Lýðsson hafði þá tekið aukaspyrnu snögglega og Höskuldur slapp þannig einn gegn Daða en markvörðurinn náði að hægja nægilega mikið á knettinum svo Guðmundur gæti komið sér á línuna og hreinsað.

 

Skömmu síðar var Gunnleifur Gunnleifsson of lengi að ákveða hvað hann vildi gera við knöttinn og þegar hann loks lyfti honum fram kom Atli Guðnason fljúgandi fyrir sendinguna. Boltinn fór í aðra marksúluna á marki Gunnleifs og aftur fyrir endamörk.

 

Gunnleifur tók útsparkið stutt en Blikar töpuðu boltanum nánast strax á eigin vallarhelmingi og heimamenn unnu hornspyrnu. Brandur Olsen tók spyrnuna á nærstöng en Damir Muminovic skallaði aftur fyrir. Aftur tók Brandur en að þessu sinni sveif knötturinn inn á markteig þar sem Lennon virtist einn á auðum sjó og skallaði knöttinn í netið. Staðan orðin 1-0 heimamönnum í vil þegar tæpar 10 mínútur voru komnar á klukkuna.

 

Heimamenn voru ekki lengi að bæta við öðru marki en sjö mínútum síðar var staðan orðin 2-0. Atli Guðnason skoraði þá sitt fyrsta deildarmark í sumar með skoti af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Lennon sem hafði fengið sendingu í gegnum vörn Blika. Á þessum tíma voru heimamenn með öll völd á vellinum og varnarlína Blika í tómu tjóni, sérstaklega vinstra megin.

 

Á 23. mínútu minnkaði Viktor Örn muninn með lausu skoti rétt fyrir utan teig eftir ágætis sókn Blika. Staðan orðin 2-1 FH í vil og þannig var hún í hálfleik. Í þeim síðari fór allt í baklás hjá heimamönnum.

 

Rauða spjaldið umturnaði leiknum

Cédric D‘Ulivo bjargaði marki með frábærri tæklingu á 52. mínútu en mínútu síðar var Davíð Þór ekki svo heppinn. Hann reif aftan í Brynjólf Darra Willumsson sem var að sleppa einn í gegn og fékk beint rautt spjald. Aðeins þremur mínútum síðar, á 56. mínútu leiksins, jafnaði Höskuldur svo með góðum skalla á markteig eftir frábæra fyrirgjöf Alfons Sampsted af hægri vængnum.

 

FH-ingar reyndu að endurkskipuleggja lið sitt en tókst það á engan hátt þar sem Thomas Mikkelsen var búinn að koma gestunum yfir á 62. mínútu með góðum skalla. Aftur eftir fyrirgjöf frá hægri en að þessu sinni var það Guðjón Pétur sem lagði upp markið.

 

Tæpum 10 mínútum síðar átti Brandur Olsen aukaspyrnu í slána á marki Breiðabliks. Blikar tóku útsparkið, léku upp hægri vænginn þar sem varamaðurinn Viktor Karl Einarsson negldi boltanum fyrir og aftur skoraði Mikkelsen. Frábært mark en sá danski fór einkar illa með Cédric D‘Ulivo í markinu – maður veltir fyrir sér hvar miðverðir FH voru þegar boltanum var spyrnt fyrir.

 

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og Blikar fögnuðu ótrúlegum 4-2 sigri.

 

Af hverju vann Breiðablik?

Af því FH kláraði ekki leikinn og Davíð Þór Viðarsson fékk rautt spjald. FH-ingar réðu engan veginn við það að vera manni færri en um tíma í fyrri hálfleik leit út fyrir að FH myndi kaffæra gestunum úr Kópavogi. Blikar fengu líflínu með marki Viktors og fundu svo taktinn í síðari hálfleik þegar þeir voru 11 gegn 10.

Hverjir stóðu upp úr?

Fyrstu 20 mínútur leiksins var Steven Lennon á pari við Ronaldinho upp á sitt besta. Hann lék sér að varnarmönnum Breiðabliks, átti hælsendingar út um allan völl ásamt því að skora og leggja upp. Líkt og allt FH liðið þá lagðist hann nánast í dvala í síðari hálfleik.

 

Hjá gestunum var Thomas Mikkelsen öflugur í fremstu línu og fór illa með varnarmenn FH. Alfons Sampsted átti nokkar baneitraðar fyrirgjafir af hægri og þá var Brynjólfur Darri Willumsson einnig öflugur í fremstu línu.

 

Að lokum er vert að nefna Andra Rafn Yeoman en hann lét sóknarleik Blika tikka án þess þó að vekja of mikla athygli á sér.

 

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk herfilega að verjast fyrirgjöfum og var varnarleikur beggja liða út á þekju á köflum. Þá gekk FH-ingum hörmulega að spila 10 gegn 11.

 

Hvað gerist næst?

FH heimsækir Stjörnuna í Garðabænum á laugardaginn kemur. Blikar fá hins vegar Fylki í heimsókn á sunnudaginn.

Ólafur Kristjánsson.vísir/bára
Ólafur: Við eigum að slátra leiknum í 2-0

„Við eigum að slátra leiknum í 2-0. Við erum með þannig tök á leiknum að þriðja markið hefði verið djöfulli sætt. 2-1 inn í hálfleik svo sem staða sem við hefðum fyrirfram getað sætt okkur við svona þannig séð og mér fannst það soft mark frá okkar bæjardyrum séð,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, um hvað hefði farið úrskeiðis hjá FH-liðinu en liðið henti frá sér 2-0 forystu gegn Breiðabliki á heimavelli.

 

Ólafur hélt áfram að ræða hvað fór úrskeiðis.

„Við missum mann upp í horn og skot fyrir utan teig sem siglir í gegn og í stöðunni 2-1 fær Davíð [Þór Viðarsson, fyrirliði FH] rautt, taldur ræna upplögðu marktækifæri. Þegar við erum að endurskipuleggja liðið þá jafna þeir og þar töpum við návígi inn í teig. Það má segja það sama um þriðja markið.“

 

Ólafur var spurður út í það hvort hann væri ósammála því að Davíð hefði rænt Brynjólf upplögðu marktækifæri.

„Það eru eflaust misjöfn sjónarhorn á það en ég heyrði það hérna að hann hefði verið talinn ræna upplögðu marktækifæri og ég get svo sem ekki sagt neitt um það fyrr en ég sé það.“

 

Að lokum var Ólafur spurður út í það hvort FH liðið myndi ekki reyna að taka það með sér sem þeir gerðu vel í dag frekar en hvað fór úrskeiðis.

„Við hendum þessum leik bara aftur fyrir okkur. Þetta eru þrjú stig sem við fáum ekki og það er leikur við Stjörnuna á laugardaginn og við getum ekkert gert í þessum helvítis leik. Hann er búinn og það þarf að bitna á Stjörnunni á laugardaginn kemur.“

Ágúst Gylfason.vísir/skjáskot
Ágúst: Gengur ekki endalaust að gefa liðum forgjöf

„Sama og gerðist á móti Val. Við þurfum að loka á þetta og gefa liðum ekki forgjöf á okkur. FH hefðu geta verið komnir þrjú eða 4-0 yfir í fyrri hálfleik. Það þarf eitthvað til að kveikja á okkur og það eru tvö mörk í dag sem gerðu það og við sýndum geggjaðan karakter,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, þegar hann var spurður út í hvað hefði farið úrskeiðis í upphafi gegn FH í kvöld.

 

Blikar lentu 2-0 undir en komu til baka og unnu magnaðan 4-2 sigur í Kaplakrika í kvöld og halda þar með 2. sæti deildarinnar en Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, fékk beint rautt spjald í upphafi síðari hálfleiks.

 

„Þegar við vorum manni fleiri fannst mér þetta aldrei spurning. Létum boltann rúlla eins og Blikar gera best og náðum á endanum að fjögur mörk.“

 

Blikar byrjuðu í 4-2-3-1 leikkerfi gegn Val og lentu 2-0 undir. Í kvöld byrjuðu þeir í 3-4-3 leikkerfi, lentu 2-0 undir og breyttu í 4-2-3-1 eftir það.

„Ég veit ekki alveg hvaða kerfi við eigum að spila en við þurfum að mæta í leikina, það er nokkuð ljóst. Þessir tveir síðustu leikir eru búnir að vera ótrúlegir þar sem við sýnum gríðarlegan karakter og komum til baka mjög sterkir en það gengur ekki endalaust að gefa liðunum forgjöf,“ sagði Ágúst.

 

Að lokum var hann spurður út í framhaldið.

„Það er einn leikur í einu, það er nokkuð ljóst. Það er leikur á móti Fylki næst og svo kemur landsleikjafrí. Svo koma þrír leikir í lokin og eftir það er talið upp úr kössunum hvar menn enda.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira