Erlent

Milljón evrur í verðlaun ef tekst að afsanna tilvist Bielefeld

Andri Eysteinsson skrifar
Blaðamanni reyndist erfitt að finna myndir frá Bielefeld. Hér er meint torg í borginni.
Blaðamanni reyndist erfitt að finna myndir frá Bielefeld. Hér er meint torg í borginni. Getty/UllsteinBild
Borgaryfirvöld í þýsku borginni Bielefeld hafa boðið hverjum þeim, sem fært getur sönnur á að borgin sé í raun og veru ekki til, eina milljón evra í verðlaun. BBC greinir frá.

Bielefeld er sögð vera í sambandsríkinu Norðurrín-Vestfalíu en samsæriskenningar þess efnis að borgin, sem stofnuð var árið 1214 og telur yfir 300 þúsund íbúa, væri ekki til birtust í árdaga Internetsins á þýskum spjallborðum.

Achim Hield, notaði Usenet, setti kenninguna fram árið 1993 en frá þeim tíma hefur grínið orðið vinsælla en árið 2012 grínaðist sjálf Angela Merkel, kanslari Þýskalands, með kenninguna. Sagðist hún hafa tekið þátt í viðburði í Bielefeld, ef borgin væri þá til.

Til þess að reyna að færa sönnur á að tilvist Bielefeld sé lygi hefur oft og tíðum verið vísað til þriggja spurninga. Þekkir þú einhvern frá Bielefeld. Hefur þú einhvern tímann komið til Bielefeld og þekkir þú einhvern sem hefur komið til Bielefeld.

Þjóðverjar hafa nú frest til 5. September næstkomandi til þess að afsanna tilvist Bielefeld. Því verður spennandi að fylgjast með því hvort einhverjum takist að sanna kenningu Achim Hield frá því fyrir 25 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×