Erlent

Átta ára stal bíl foreldra sinna og ók á ofsahraða

Andri Eysteinsson skrifar
Drengurinn keyrði á um 140 kílómetra hraða.
Drengurinn keyrði á um 140 kílómetra hraða. Getty/NurPhoto
Átta ára gamall þýskur drengur í þýska sambandsríkinu Norðurrín-Vestfalíu sem hafði yfirgefið heimili sitt í bænum Soest skömmu eftir miðnætti fannst 45 mínútum síðar á A44 þjóðveginum (Bundesautobahn 44) í nágrenni Dortmund. BBC greinir frá.

Drengurinn hafði stolið sjálfskiptum Volkswagen Golf bíl foreldra sinna og fór á rúntinn. Drengurinn hafði farið á veginn og ekið þar á ofsahraða, 140 kílómetrum á klukkustund. Drengurinn sagði að hann hafi einfaldlega viljað fara út að keyra. Hraðinn á þjóðveginum fór hins vegar illa í drenginn sem fékk hausverk og lagði því bílnum í vegarkantinum.

Því næst setti hann hættuljós bílsins í gang og kom öryggisþríhyrningi fyrir nærri bílnum. Þegar lögregla mætti á staðinn brast drengurinn í grát. Enginn slasaðist vegna aksturs drengsins og olli hann engum skemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×