Erlent

Net­heimar loga vegna skógar­elda í Amazon frum­skóginum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Amazon regnskógurinn í ljósum logum.
Amazon regnskógurinn í ljósum logum. getty/Universal Images Group
Miklir skógareldar loga í Amazon frumskóginum og ollu þeir því í gær að það varð rafmagnslaust í brasilísku borginni Sao Paulo. Þúsundir hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins í Amazon. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Rafmagnið fór af í rúman klukkutíma á mánudag vegna þess að sterkir vindar blésu reyk frá skógareldunum sem geysa nú í Amazonas og Rondonia ríkjunum, sem eru í meira en 2700 kílómetra fjarlægð frá borginni.

Myllumerkið #prayforamazonia, sem hægt er að þýða sem „biðjið fyrir Amazoníu,“ varð vinsælt á Twitter og meira en 150.000 tíst fjölluðu um skógareldana. 

Í samtali við BBC sagði Gianvitor Dias, íbúi í Sao Paulo, að það hafi nánast verið eins og dagur yrði að nóttu þegar reykurinn lá yfir borginni. Allir borgarbúar hafi talað um ástand himinsins vegna þess að jafnvel á rigningardögum yrði ekki svo þungbúið.

Mörg vinsælustu tístanna um málið gagnrýndu forseta Brasilíu, Jair Bolsonaro, vegna aðgerðarleysis. Bolsonaro hefur ítrekað verið gagnrýndur vegna rýrnunar Amazon skógarins síðan valdatíð hans hófst í janúar. Þar á meðal hafa vísindamenn frá Geimrannsóknarstofnun Brasilíu sagt skógana hafa minnkað töluvert síðan Bolsonaro tók við embætti.



Forsetinn hefur þó lítið látið gagnrýnisraddir á sig fá og svaraði hann vísindamönnunum á þann máta að gögnin sem þau byggðu gagnrýni sína á endurspegluðu ekki raunveruleikann. Auk þess ásakaði hann sömu vísindamennina um að rægja landið fyrir augum alþjóða.

Netverjar lýsa nú yfir áhyggjum sínum vegna náttúruspjalla í skóginum, sem er stærsti regnskógur á jörðinni, og hvaða áhrif eldarnir muni hafa á vistkerfi skógarins.

Í myndum frá Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, sést að gróðureldarnir geisa á stórum landsvæðum í Brasilíu, Bólivíu og Paragvæ. Amazonas ríkið lýsti yfir neyðarástandi vegna eldanna fyrr í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×