Mikið annríki var hjá Landhelgisgæslunni seinni part dags að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar. Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar í þrígang.
Fyrsta útkallið sneri að slasaðri hestakonu í Biskupstungum en meiðsli hennar voru á þá leið að vænlegast var að kalla eftir aðstoð sjúkraþyrlu. Þyrlan lagði af stað frá Reykjavík klukkan 16:08 en að sögn Ásgeirs var þyrlan rétt ókomin til baka þegar annað útkall barst.
Var þá óskað eftir aðstoð vegna bráðra veikinda á Ísafirði og var önnur þyrluáhöfn kölluð til. Lenti þyrlan í Reykjavík og við tók eldsneytisáfylling sem að sögn Ásgeirs var framkvæmd á meðan að vél þyrlunnar var enn í gangi. Á þeim tímapunkti hafði þriðja beiðnin um þyrlu borist til Landhelgisgæslunnar, að þessu sinni vegna göngumanns í vanda við Kristínartinda við Skaftafellsjökul.
Eftir að fyllt hafði verið á eldsneytistanka þyrlunnar hélt hún rakleitt af stað vestur á firði þar sem hún sinnti útkallinu vegna bráðra veikinda. Á leið þyrlunnar vestur barst leystist vandi göngumannsins og var aðstoð þyrlunnar því afturkölluð.
Ekki kom til þess að óska eftir aðstoð bandarísku her-sjúkraþyrlanna sem hingað til lands eru komnar í tengslum við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna Mike Pence. Að sögn Ásgeirs var ekki ástæða til þess að óska eftir bandarísku þyrlunum þó að annríki sem þetta sé óalgengt hjá Landhelgisgæslunni.
