Í tilkynningu segir að skipstjóri eftirlitsbáts Marglytta, sem ætlaði að fylgja sundhópnum yfir Ermasundið, hafi tekið ákvörðunina um að fresta boðsundinu. Ekki hafi reynst mögulegt að nýta veðurglugga í nótt þar sem bætt hafi í vind. Annar veðurgluggi opnist mögulega til sundsins seinni partinn í dag, þó með fyrirvara.
Haft er eftir Sigrúnu Þ. Geirsdóttur, einni af Marglyttunum og einu íslensku konunni sem synt hefur Ermarsundið ein, í tilkynningu að Marglytturnar hafi mætt niður á höfn í nótt í góðum gír.
„[…] og tilbúnar að leggja af stað þrátt fyrir þennan vind, en svona er þetta með Ermarsundið, það eru margir áhrifaþættir. Við erum vongóðar að vind lægi og að við getum nýtt gluggann seinna í dag.“
Markmiðið með boðsundinu er að vekja athygli á áhrifum plastmengunar á lífríki sjávar en Marglyttur eru að safna áheitum fyrir umhverfisverndarsamtökin Bláa herinn. Hægt er að styðja Marglyttur í AUR-appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219.
