Erlent

Hætti við leynilega heimsókn Talibana til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði frá því í kvöld að æðstu leiðtogar Talibana og forseti Afganistan hefðu ætlað að koma á leynilegan fund hans í Camp David á morgun. Hann hefði hins vegar hætt við fundinn eftir að Talibana lýstu yfir ábyrgð á árás á fimmtudaginn þar sem bandarískur hermaður féll og ellefu almennir borgarar dóu. Fjórir bandarískir hermenn hafa fallið í Afganistan á síðustu þremur vikum.

„Ég hætti umsvifalaust við fundinn og stöðvaði friðarviðræður,“ skrifaði Trump á Twitter. „Hvurslags fólk myrðir svo marga til að reyna að styrkja samningsstöðu sína? Þeir gerðu það ekki, þeir gerðu hana verri.“

Þá sagði Trump að ef Talibanar gætu ekki samþykkt vopnahlé á meðan á viðræðunum stóð, væri líklegast tilgangslaust að tala við leiðtoga Talibana. Þeir hefðu ekki vald til að stöðva árásir meðlima sinna.

„Hve marga áratugi eru þeir tilbúnir að berjast?“ spurði forsetinn svo.

Friðarviðræður á milli Bandaríkjanna og Talibana hafa staðið yfir um nokkuð skeið og hefur ríkisstjórn Afganistan að mestu verið haldið frá þeim, að beiðni Talibana. Á þeim tíma hefur ekkert lát verið á mannskæðum árásum Talibana og hefur mannfall meðal almennra borgara verið mikið.

Markmið árása Talibana hefur verið að styrkja stöðu þeirra í viðræðunum en þeir stjórna í raun stórum hluta Afganistan. Yfirráðasvæði þeirra hefur ekki verið svo umfangsmikið síðan fyrir innrás Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Fyrstu formlegu viðræður Bandaríkjanna og Talibana

Bandaríkin gerðu innrás í Afganistan eftir árásirnar á Tvíburaturnana í New York í þann 11. september 2001. Talibanar, sem þá stjórnuðu Afganistan, studdu við bakið á al-Qaeda með fjármagni, þjálfun og vopnum. Það hefur þegar vakið mikla athygli að Trump hafi ætlað að taka á móti fulltrúum Talibana í Bandaríkjunum svo skammt frá afmæli árásanna.

Zalmay Khalilzad, samningamaður Bandaríkjanna, lýsti því yfir á mánudaginn að búið væri að leggja grunninn að samkomulagi við Talibana. Samkvæmt því þyrftu Bandaríkin að kalla 5.400 hermenn heim frá Afganistan á næstu tuttugu vikum. Hann sagði að það eina sem vantaði væri samþykki Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×