Fótbolti

Ótrúlegar myndir frá komu Falcao til Tyrklands

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Radamel Falcao
Radamel Falcao vísir/getty
Óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríki á meðal stuðningsmanna tyrkneska stórveldisins Galatasaray vegna komu kólumbíska framherjans Radamel Falcao til félagsins.

Þessi 33 ára gamli markahrókur gekk í raðir Galatasaray frá franska úrvalsdeildarliðinu Monaco á dögunum.

Falcao gerði þriggja ára samning við tyrknesku meistarana sem þurftu að punga út um 5 milljónum evra fyrir félagaskiptin.

Ótrúlegar móttökurRúmlega 25 þúsund manns voru mættir á flugvöllinn í Istanbul á dögunum þegar Falcao mætti á svæðið og það var ekki minni stemning á heimavelli liðsins í gær þegar Falcao var kynntur formlega fyrir stuðningsmönnunum ásamt öðrum leikmönnum sem gengu í raðir Galatasaray í sumar.

Yfir 40 þúsund manns mættu til að hylla nýja leikmenn félagsins og er óhætt að segja að Falcao hafi verið aðalnúmerið á svæðinu eins og sjá má á myndbandi neðst í fréttinni.

Falcao hefur raðað inn mörkum á ferli sínum ef frá er talin vera hans í enska boltanum þar sem hann náði aldrei að sýna sínar bestu hliðar, hvorki hjá Manchester United né Chelsea.

Falcao skoraði 15 mörk í 33 leikjum fyrir Monaco í Ligue 1 á síðustu leiktíð en hann hefur gerði garðinn frægan með Atletico Madrid, Porto og River Plate áður en hann var keyptur til Monaco fyrir 60 milljónir evra sumarið 2013.

Hann er markahæsti leikmaður kólumbíska landsliðsins frá upphafi með 34 mörk í 89 landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×