Erlent

Baulað á Johnson í Lúxemborg

Kjartan Kjartansson skrifar
Bettel tók einn við spurningum blaðamanna eftir að Johnson hætti við fundinn vegna hóps mótmælenda sem gerði hróp að honum.
Bettel tók einn við spurningum blaðamanna eftir að Johnson hætti við fundinn vegna hóps mótmælenda sem gerði hróp að honum. Vísir/EPA
Forsvarsmönnum Evrópusambandsins og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bar ekki saman um gang viðræðna þeirra um fyrirhugaða útgöngu Breta eða hver bæri ábyrgð á að leysa úr þráteflinu varðandi hana eftir fundi þeirra í Lúxemborg í dag. Johnson hætti við blaðamannafund með forsætisráðherra Lúxemborg vegna háværra mótmæla.

Johnson fundaði með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, Michel Barnier, aðalsamningamann ESB gagnvart Bretlandi, og Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar, í dag. Eftir fundina hélt Johnson því fram að nýr útgöngusamningur væri byrjaður að sjá dagsins ljós.

„Já, það eru góðir möguleikar á samningi, já ég get séð móta fyrir því, allir sjá um það bil hvað er hægt að gera,“ sagði Johnson við blaðamenn eftir fundina.

Leiðtogar Evrópusambandsins sögðu aftur á móti að breski forsætisráðherrann hefði ekki lagt neitt nýtt fram, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Nýjar tillögur um samninga þyrftu að vera í samræmi við samninginn sem breska þingið hefur hafnað í þrígang.

Bettel lét Johnson heyra það á blaðamannafundi sem Johnson hætti við að taka þátt í vegna hóps mótmælenda sem gerði hróp að honum. Sagði hann að Johnson bæri ábyrgð á að leysa úr þráteflinu og að hann hefði framtíð allra Breta í höndum sínum.

„Þú getur ekki haldið framtíðinni í gíslingu fyrir flokkspólitíska hagsmuni,“ sagði Bettel.

Reuters segir að mótmælendurnir hafi meðal annars verið breskir eftirlaunaþegar búsettir í Lúxemborg. Þeir hafi heyrst hrópa „fasisti“, „stöðvið valdaránið, segið sannleikann“ og „Skammastu þín, Boris“ að Johnson.

Eftir á bar Johnson því við að það hefði verið ósanngjarnt gagnvart Bettel að hann tæki þátt í blaðamannafundinum vegna mótmælendanna. Bettel tók engu að síður við spurningum blaðamanna við hlið auðs ræðupúlts þar sem Johnson átti að standa.


Tengdar fréttir

Viðræður í skötulíki

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hélt því fram í viðtali við Mail on Sunday að góður gangur væri í samningaumleitunum við Evrópusambandið um útgöngu Bretlands. Heimildarmenn dagblaðsins The Guardian innan ESB halda hins vegar öðru fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×