Pukki með mark og stoðsendingu þegar nýliðarnir unnu meistarana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pukki fagnar marki sínu.
Pukki fagnar marki sínu. vísr/getty
Norwich City varð í dag fyrst liða til að vinna Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Lokatölur 3-2, Norwich í vil.

Finnski framherjinn Teemu Pukki skoraði eitt mark í leiknum og lagði annað upp. Hann hefur skorað 16 mörk í síðustu 16 leikjum sínum fyrir Norwich og finnska landsliðið.



Kenny McLean kom Norwich yfir með skalla eftir hornspyrnu Emi Buendía á 18. mínútu. Tíu mínútum síðar jók Todd Cantwell muninn í 2-0 með skoti af stuttu færi eftir sendingu frá Pukki.

Sergio Agüero minnkaði muninn í 2-1 á lokamínútu fyrri hálfleiks með skalla eftir sendingu Bernardos Silva.

Eftir aðeins fimm mínútur í seinni hálfleik kom Pukki Norwich í 3-1 eftir sendingu frá Buendía. Þetta var sjötta deildarmark hans á tímabilinu.

Rodri minnkaði muninn í 3-2 á 88. mínútu en nær komst City ekki og Norwich fagnaði óvæntum sigri. Kanarífuglarnir eru í 12. sæti deildarinnar með sex stig.

Englandsmeistarar City eru í 2. sætinu með tíu stig, fimm stigum á eftir toppliði Liverpool.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira