Enski boltinn

Keegan með krabba­mein

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Keegan stýrði meðal annars Newcastle í tvígang, eftir afar farsælan feril sem leikmaður.
Kevin Keegan stýrði meðal annars Newcastle í tvígang, eftir afar farsælan feril sem leikmaður. Getty/Owen Humphreys

Fótboltagoðsögnin Kevin Keegan hefur fengið góðar batakveðjur frá bæði Liverpool og Newcastle eftir að fjölskylda hans greindi frá því í dag að hann hefði greinst með krabbamein.

Keegan, sem er 74 ára gamall, er fyrrrverandi leikmaður og þjálfari enska landsliðsins. Hann átti magnaðan feril sem leikmaður, sérstaklega á gullaldarárum með Liverpool á áttunda áratugnum, og bæði lék með og stýrði síðar Newcastle ásamt fleiri liðum.

„Kevin var nýlega lagður inn á sjúkrahús til frekari rannsókna eftir einkenni í maga. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós krabbamein sem Kevin mun nú fara í meðferð við,“ sagði í tilkynningu frá fjölskyldu Keegans.

„Kevin er þakklátur læknateyminu fyrir inngrip þess og áframhaldandi umönnun,“ sagði þar einnig auk þess sem óskað var eftir því að Keegan og hans fjölskylda fengi frið frá fjölmiðlum og öðrum.

Newcastle sendi frá sér skilaboð til „King Kev“ þar sem sagði að félagið stæði með honum í baráttunni alla leið, og að vonandi yrði bati hans góður og skjótur.

Í tilkynningu frá Liverpool sagði að hugur og stuðningur allra hjá félaginu væri hjá Keegan, og að honum, fjölskyldu hans og vinum væru færðar bestu óskir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×