Báðir eru frábærir glímumenn og líklegt að bardaginn verði mikið í gólfinu. Burns hlakkar til að djöflast í búrinu með Gunnari.
„Ég býst við mjög erfiðum bardaga. Gunnar er mjög sterkur andstæðingur og frábær í gólfglímunni. Ég hlakka til að glíma við hann. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hlakka mikið til bardagans,“ sagði Burns spenntur.
Þar sem þeir eru báðir frábærir í gólfinu gætu úrslit ráðist er þeir standa og boxa. Burns er klár í það.
„Ég er tilbúinn í að mæta honum standandi. Ég er hrifinn af karatestílnum hans og hef æft með mörgum sem hafa svipaðan stíl. Ég hef samt á tilfinningunni að við munum glíma mikið og það verður gaman.“
Burns er brattur og efast ekkert um að hann muni klára okkar mann sem hann segir hafa marga veikleika.
„Gunnar er með marga veikleika. Honum er nánast alltaf kastað í gólfið og svo er hakan svolítið ofarlega þar sem hann er með karatestíl. Það hentar mér vel að mæta manni eins og honum. Ég er höggþungur og mikið úthald. Ég er með vopnin til þess að klára Gunnar og þess vegna tók ég bardagann.“