Bíó og sjónvarp

Alls ekki ætlunin að draga upp mynd af Jókernum sem hetju

Atli Ísleifsson skrifar
Joaquin Phoenix fer með hlutverk Jókersins í myndinni.
Joaquin Phoenix fer með hlutverk Jókersins í myndinni.
Það er alls ekki ætlunin að karakterinn Jókerinn, eða samnefnd kvikmynd sem frumsýnd verður í næsta mánuði, sé hvatning til ofbeldisverka. Ekki sé heldur ætlunin myndarinnar, kvikmyndagerðarmannanna eða framleiðslufyrirtækisins að draga upp mynd af persónunni sem hetju.

Þetta kemur fram í svari bandaríski kvikmyndaframleiðandans Warner Bros. vegna ákalls aðstandenda fórnarlamba skotárásarinnar í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado árið 2012 þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum vegna sýningar myndarinnar og hvetja fyrirtækið til að ganga til liðs við baráttuna gegn skotárásum.

Alls fórust tólf manns í árásinni í kvikmyndahúsinu í Aurora 2012 þar sem verið var að sýna The Dark Knight Rises.

Gekk út úr viðtali

Talsverð umræða hefur skapast um skotárásir í aðdraganda frumsýningar myndarinnar og þannig gekk Joaquin Phoenix, sem fer með titilhlutverkið í myndinni, út úr viðtali þegar hann var spurður um málið.





Aðstandendur fórnarlamba árásarinnar í Aurora sögðu að það hafi runnið á það tvær grímur þegar fréttir bárust af framleiðslu myndar um Jókerinn, þar sem upp er dregin samúðarfull mynd af aðalpersónunni og einu illmenni Gotham-borgar, Jókersins.

Engin hetja

Í yfirlýsingu frá Warner Bros. segir að skotárásir í samfélaginu séu alvarlegt mál og að aðstandendum séu sendar innilegar samúðarkveðjur vegna missis þeirra.

Bendir fyrirtækið á að það hafi lengi lagt fé til fórnarlamba ofbeldis og hvatt til lagasetningar til að bregðast við þessum faraldri.

 

Joaquin Phoenix.Getty
„Samtímis þá trúir Warner Bros. að það sé eitt af hlutverkum frásagnarlistarinnar að ýta undir erfiðar umræður um flókin viðfangsefni. Ekki veljast í nokkrum vafa; hvorki sögupersónan Jókerinn, né myndin, er hvatning til nokkurs konar ofbeldis í raunheimum. Það er ekki ætlun myndarinnar, kvikmyndagerðarmannanna eða framleiðslufyrirtækisins að draga upp mynd af persónunni sem hetju.“

Ekki tekin til sýninga

Upphaflega bárust fréttir af því að Jókerinn hafi veitt árásarmanninum í Aurora innblástur til voðaverkanna, en fyrir dómi kom fram að svo var í raun ekki.

Jókerinn verður ekki tekin til sýninga í kvikmyndahúsinu í Aurora þar sem voðaverkin árið 2012.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×