Innlent

Tals­maður Ólafs segir á­kvörðun MDE vera viður­kenning á al­var­legum at­huga­semdum við máls­með­ferð

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Talsmaður Ólafs segir að málið sé mikilvægt fyrir réttarkerfið í heild.
Talsmaður Ólafs segir að málið sé mikilvægt fyrir réttarkerfið í heild. Fréttablaðið/Vilhelm
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka fyrir kæru Ólafs Ólafssonar, fjárfestis sem var einn af aðaleigendum Kaupþings, vegna fjármálaumsvifa tveggja hæstaréttardómara, þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar, þáverandi forseta dómsins og Árna Kolbeinssonar í aðdraganda hrunsins.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, greindi frá þessu í morgun. Blaðið hefur undir höndum bréf frá MDE til íslenska ríkisins þar sem lagðar eru fyrir þrjár spurningar um meðferð málsins og óskað eftir því að málsaðilar nái sáttum í málinu sem gætu þá meðal annars grundvallast á skaða – og miskabótum vegna dóms í svonefndu Al-Thani máli fyrir 2. Desember. Nái málsaðilar ekki sáttum mun dómurinn taka málið til efnislegrar meðferðar.

Sjá nánar: Hlutabréfaeign dómara til meðferðar hjá MDE

Ekki náðist í Ólaf Ólafsson við gerð fréttarinnar en talsmaður hans Björgvin Guðmundsson, meðeigandi KOM, segir ákvörðun MDE sýna að tilefni sé til að taka málið fyrir.

„Þótt í því felist í sjálfu sér engin afstaða réttarins til málsins á þessu stigi er það ákveðin viðurkenning á þeim alvarlegu athugasemdum sem Ólafur setur fram í kærunni og sýna fram á fjárhagslega hagsmuni dómara í málum sem þeir dæmdu í,“ segir Björgvin.

Krafa Ólafs, sem og allra annarra landsmanna, sé að vera dæmdur af óvilhöllum dómstólum.

„Þar sem ekki er tilefni til að efast um hæfi dómara eins og í umræddu máli.“

Björgvin segir mál Ólafs vera mikilvægt fyrir réttarkerfið í heild sinni.

„Þar sem almenningur þarf að geta treyst því að dómarar gæti að hæfi sínu og að hlutleysi dómsins sé tryggt.“


Tengdar fréttir

Hæstaréttardómari vanhæfur í Al-Thani málinu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að Árni Kolbeinsson hæstaréttardómari hafi verið verið vanhæfur í Al-Thani málinu. Íslenska ríkið þarf að greiða Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni tvö þúsund evrur í bætur.

Hlutabréfaeign dómara til meðferðar hjá MDE

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið fjárfestingarumsvif tveggja hæstaréttardómara í aðdraganda falls bankanna til meðferðar. Biðlar til málsaðila að leita sátta. Náist það ekki fer málið áfram fyrir dómstólnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×