Innlent

Læknar á varð­bergi vegna raf­retta

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Á bilinu 10-15% íslenskra unglinga nota rafrettur að staðaldri.
Á bilinu 10-15% íslenskra unglinga nota rafrettur að staðaldri. vísir/getty
Lungalæknir segir mikið áhyggjuefni hversu mörg íslensk börn nota rafrettur. Vakning sé á meðal lækna að reyna að greina veikindi tengd notkuninni.

Grunur leikur á að unglingur sem nýlega greindist með lungnasjúkdóm hér á landi hafi veikst vegna rafrettunotkunar. Drengurinn er á batavegi en hefur hlotið meðferð vegna sjúkdómsins á Landspítalanum. Í tilkynningu sem Landlæknisembættið sendi frá sér í gær, vegna málsins, kemur fram að birtingarmynd sjúkdómsins svipi til þess sem lýst hefur verið í Bandaríkjunum. Þar hefur verið faraldur af alvarlegum lungnasjúkdómum sem tengjast rafrettum en yfir fimm hundruð tilfelli hafa komið þar upp.

Alma Dagbjört Möller, landlæknir
Sif Hansdóttir er yfirlæknir lungnalækninga á lyflækningasviði Landspítalans segir tilfelli drengsins það eina sem vitað er um að hafi komið upp hér á landi. „Við erum að skoða aftur í tímann einstaklinga sem hafa verið mikið veikir en ekki fundist skýring á þeirra einkennum en eins og staðan er núna höfum við ekki fundið neinn sem hefur tengst beint við veipið,“ segir Sif.

Sif segir vakningu á meðal lækna að greina veikindi tengd rafrettunotkun. „Það er þannig að fólk er orðið miklu, miklu meðvitaðra, bæði læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, eftir þessar fréttir frá Bandaríkjunum. Þannig að ég held ekki endilega að tilfellunum sé að fjölga en ég held að við séum miklu meira vakandi og þannig verið að finna tilfelli sem að við höfum mögulega áður misst af,“ segir Sif.

Alma Möller landlæknir sagði í fréttum okkar í gær að vitað væri að 50% þeirra sem eru í 10. bekk hafi prófað rafrettur og að 10-15% nota þær að staðaldri. Sif segir mikilvægt að börn noti ekki rafrettur en þessar tölur um notkun komi henni þó ekki á óvart. „Í rauninni ekki miðað við þessar tölur sem er verið að birta frá Bandaríkjunum og við Íslendingar líkjumst nú svolítið í háttum því sem hefur verið að gerast þar en 10% af krökkum í 10. bekk er náttúrulega gríðarlega há tala og er mikið áhyggjuefni,“ segir Sif.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×