Erlent

Tugir barna deyja úr beinbrunasótt í Hondúras

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Á sjúkrahúsi í Managua.
Á sjúkrahúsi í Managua. AP/Alfredo Zuniga
Að minnsta kosti 135 hafa farist í Hondúras úr beinbrunasótt á árinu. Þar af eru um tveir þriðju hlutar börn. Enn er beðið eftir staðfestingu á að fleiri andlát megi rekja til sjúkdómsins í landinu.

Til viðbótar hafa tugir farist í Gvatemala, Mexíkó og Níkaragva og hafa ekki svo margir látið lífið úr veikinni frá árinu 2013. Þá var sóttin verst í Mexíkó og heimti líf 192.

Samkvæmt upplýsingum af vef Landlæknis smitast beinbrunasótt með moskítobiti. Blæðandi beinbrunasótt getur leitt til dauða í um helmingi tilfella ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður og eru börn og unglingar í mestri hættu.

„Hér geisar faraldur. Á um fjögurra ára fresti brýst út beinbrunasóttarfaraldur, aðallega vegna lélegs hreinlætis og skorts á fræðslu um sýkt vatn,“ sagði Sara Hernandez, læknir í Hondúras.

Sextán höfðu farist úr veikinni í Hondúras undanfarin fimm ár og þykir kæruleysi hafa gert faraldurinn verri. Fólk sagt hafa leitað læknisaðstoðar of seint. Þá ríkir einnig mikil óreiða í landinu og hefur áformum Juans Hernandez forseta í heilbrigðiskerfinu verið harðlega mótmælt. Hernandez var endurkjörinn árið 2017 og sakaður um kosningasvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×