Handbolti

Seinni bylgjan: Brottvísunin á varamannabekk Aftureldingar „hálfgert hneyksli“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bekkurinn fær brottvísun.
Bekkurinn fær brottvísun. VÍSIR/SKJÁSKOT
Mikill hiti var eftir leik FH og Aftureldingar í Olís-deildinni á sunnudagskvöldið en FH vann nauman sigur eftir spennuleik.

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var heitt í hamsi eftir leikinn og lét dómara leiksins og eftirlitsdómara heyra það eftir leikinn.

„Ég held að Einar Andri taki pirringinn út á þessu atviki eftir að það sem gerðist fyrr í leiknum hvað varðar brottvísunina sem þeir fá þegar lítið er eftir,“ sagði Guðlaugur Arnarsson.

Gestur Ólafur Ingvarsson er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum og tæpum tíu mínútum fyrir leikslok meiddist hann illa. Þrír starfsmenn Aftureldingar fóru inn á völlinn og fyrir það fengu þeir tveggja mínútna brottvísun.

„Fyrsta orðið sem mér datt í hug var orð sem Guðmundur Guðmundsson kenndi mér snemma á ferlinum: katastrófa. Það fara þrír starfsmenn inn á völlinn og samkvæmt ströngustu reglum eru það tvær mínútur.“

„Þarna er ekkert verið að lesa leikinn. Þú ert með ungan strák sem er að slíta krossband í annað skiptið og það eru ekki eins og það séu sjö veðhlaupahestar inn á. Það eru tilfinningar í þessu.“

Jóhann Gunnar segir að Gísli Hlynur, eftirlitsdómari, hafi átt að skilja stöðuna sem upp var komin og leysa þetta betur.

„Það er verið að setja manninn á börur og Gísli á bara að lesa leikinn og segja við Ásgeir að hann megi ekki vera inn á. Staðan er 20-20 og fer í 23-20; vegna áfallsins og að vera einum færri. Ég skil Einar Andra að vera brjálaðan.“

„Þetta er hálfgert hneyksli. Það er ekki eins og hann hafi fengið högg í magann og þeir hafa komið inn á og röflað í dómaranum. Þú ert að slíta krossband og auðvitað ferðu inn á og spyrð hann hvernig hann hefur það. Ég varð eiginlega smá reiður,“ sagði Jóhann Gunnar.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að neðan.



Klippa: Seinni bylgjan: Dómgæslan í FH-Afturelding

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×