Enski boltinn

Strandboltamarkið fræga á tíu ára afmæli í dag en sökudólgurinn var sextán ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Bent skoraði með góðri hjálp frá strandbolta.
Darren Bent skoraði með góðri hjálp frá strandbolta. Getty/ Mike Hewitt
Liverpool situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í dag en fyrir nákvæmlega tíu árum síðan fékk liðið á sig eitt skrautlegasta markið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool mætti þá Sunderland á Leikvangi ljósanna í Sunderland í níundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Liverpool hafði náð hæst þriðja sæti eftir fjórða sigurinn í röð en tapaði síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé sem var á móti verðandi meisturum í Chelsea. Leikurinn á móti Sunderland var sá fyrsti eftir landsleikjahléið.





Úrslitin réðust strax á fimmtu mínútu leiksins. Darren Bent fékk markið skráð á sig en boltinn endaði í markinu eftir að hafa hitt í strandbolta sem hafði borist frá áhorfendum og inn í teiginn.  Dómarinn ákvað að dæma markið gilt en seinna koma það í ljós að markið átti aldrei að vera dæmt gilt.

Liverpool tapaði þessum leik 1-0 og við tóku erfiðar vikur þar sem lítið gekk upp. Það var líka erfitt fyrir leikmenn og stjór félagsins að sætta sig við það að hafa tapað leik á Strandboltamarkinu fræga.

Rafael Benitez var knattspyrnustjóri Liverpool á þessum tíma og Spánverjinn Pepe Reina stóð í markinu.





Breska ríkisútvarpið minntist þessa marks í dag og þar kom líka í ljós að sökudólgurinn var sextán ára gamall stuðningsmaður Liverpool sem átti sjálfur mjög erfiða daga í kjölfarið.

Hinn sextán ára gamli Callum Campbell átti ekki boltann en það var hann sem sló hann í átt að vellinum. Krafturinn var það mikill að boltinn endaði inn í teig fyrir framan Pepe Reina.

„Hvernig átti ég að vita hvað myndi gerast?,“ sagði Callum Campbell í blaðaviðtali á sínum tíma en hann fékk líflátshótanir í kjölfarið. Einhver sagði honum að gera líkkistuna klára og annar ætlaði að gera úr honum karrýrétt.

Boltinn er svo frægur að það er hægt að skoða hann á National Football Museum í Manchester borg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×