Erlent

Herinn hefndi fyrir lögregluna

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Eiturlyfjastríðið í Mexíkó fer harðnandi.
Eiturlyfjastríðið í Mexíkó fer harðnandi. Nordicphotos/Getty
Alls hafa 29 manns fallið í skotbardögum á milli öryggissveita Mexíkóhers, lögreglunnar og vopnaðra borgara á aðeins tveimur dögum. Sterkur grunur leikur á að um tengda atburði sé að ræða, enda gerðust þeir ekki langt hver frá öðrum. Lítið er vitað um atvikin en talið er öruggt að þau tengist eiturlyfjahringjum.

Á mánudag féllu 14 lögreglumenn í borginni El Aguaje í suðurhluta Mexíkó og þrír til viðbótar særðust. Lögreglumennirnir voru í nokkrum bifreiðum sem umkringdar voru af vopnuðum mönnum á pallbílum. Árásarmennirnir, sem talið er að séu liðsmenn eiturlyfjahringsins Jalisco Nueva Generacion, létu þá kúlum rigna yfir bílana og kveiktu í þeim.

Degi seinna bárust fréttir af því að öryggissveitir Mexíkóhers hafi látið til skarar skríða gegn vopnuðum borgurum í borginni Iguala, aðeins sunnar. Sveitirnar felldu 14 en einn féll úr liði hersins. Talið er öruggt að aðgerðin hafi verið viðbragð við þeirri fyrri.

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti landsins, hefur heitið því að taka harðar á ofbeldisglæpum í landinu og kennir forverum sínum um ástandið. Í mörg ár hefur eiginleg eiturlyfjastyrjöld geisað í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×