Erlent

Segir innrás Tyrkja beint gegn hryðjuverkamönnum Kúrda

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Mevlut Cavusoglu segir Tyrki gera meira í flóttamannamálum en aðrir. Tyrk­land er með hæstu út­gjöld til mann­úðar­mála í heiminum og hýsir flesta flótta­menn á heims­vísu.
Mevlut Cavusoglu segir Tyrki gera meira í flóttamannamálum en aðrir. Tyrk­land er með hæstu út­gjöld til mann­úðar­mála í heiminum og hýsir flesta flótta­menn á heims­vísu. Nordicphotos/Getty
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sendi Fréttablaðinu grein sem birt var á frettabladid.is í gær. Þar rekur hann ástæður Tyrklandsstjórnar fyrir innrásinni í Kúrdahéröð Sýrlands.

„Tyrk­land hóf að­gerðina til þess að tryggja þjóðar­öryggi sitt með því að af­létta þeirri hættu sem stafaði af hryðju­verka­mönnum með­ fram landa­mæra­svæðum landsins. Að­gerð þessi mun frelsa Sýr­lendinga sem þar búa úr á­nauð hryðju­verka­sam­taka og upp­ræta þá ógn sem vofir yfir frið­helgi yfir­ráða­svæðis Sýr­lands og stjórn­mála­legri heild landsins,“ segir Cavusoglu í greininni.

Hafnar hann því alfarið að innrásinni sé beint gegn Kúrdum sem slíkum og einnig að hún dragi tennurnar úr baráttunni gegn ISIS. Segir hann ranga mynd hafa verið dregna upp af innrásinni.

„Við höfum í­trekað lagt fram til­lögu um að komið verði upp öruggu svæði, þ.m.t. á vett­vangi alls­herjar­þings Sam­einuðu þjóðanna. Við höfum hvatt Banda­ríkin til að hætta að veita hermdar­verka­mönnum efnis­legan stuðning. En banda­ríska skrif­stofu­veldið í öryggis­málum gat ekki komið sér til að losa sig við þann hóp sem þekktur er með skamm­stöfuninni P.Y.D./Y.P.G., þ.e. Lýð­ræðis­sam­bands­flokkur Kúrda/Verndar­sveitir al­þýðunnar.“

Líkt og Recep Erdogan forseti segir Cavusoglu að P.Y.D/Y.P.G. hafi tengsl við Verkamannaflokk Kúrda, sem skilgreindur er sem hryðjuverkasamtök í Tyrklandi, og smygli sprengiefnum undir landamærin í gegnum jarðgöng. Kúrdar, Arabar og kristnir verði betur settir þegar Tyrkjaher frelsi þá undan oki samtakanna.

Þá segir Cavusoglu að Tyrkir veiti miklum fjölda flóttamanna athvarf, þar á meðal 300 þúsund Kúrdum. „Tyrk­land er með hæstu út­gjöld til mann­úðar­mála í heiminum og hýsir flesta flótta­menn á heims­vísu,“ segir hann.




Tengdar fréttir

Átökin í norðurhluta Sýrlands að flækjast

Sýrlandsher berst með Kúrdum á einum stað en gegn þeim á öðrum. Tyrkir og málaliðar þeirra segjast hafa náð tveimur borgum. Á meðan sleppa Kúrdar fjölskyldum ISIS og Bandaríkjamenn færa herafla frá Sýrlandi til Sádi-Arabíu.

Trump ræddi við Erdogan í síma

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna greindi frá símtali Trumps og Erdogan og sagðist sjálfur ætla að heimsækja Sýrland á allra næstu dögum til að lægja ófriðaröldurnar.

Læknar án landamæra flýja undan innrás Tyrklands

Hjálparstarfsmenn Læknar án landamæra ætla að yfirgefa norðausturhluta Sýrlands. Sú ákvörðun hefur verið tekin að stöðva nánast alla starfsemi samtakanna á svæðinu þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi hjálparstarfsmanna samtakanna vegna innrásar Tyrkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×