Matur

Hollasta græn­metið

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Grænmeti er hægt að matreiða á ýmsan hátt. Það er stútfullt af ýmsum vítamínum og steinefnum.
Grænmeti er hægt að matreiða á ýmsan hátt. Það er stútfullt af ýmsum vítamínum og steinefnum. Getty
Næringarráðgjafinn Jayne Leonard birti lista yfir 15 hollustu grænmetistegundirnar á læknafréttasíðunni Medical News Today. Þar tekur hún fram að það að borða grænmeti sé ein einfaldasta leiðin til að bæta heilsu og almenna vellíðan.

Spínat

Spínat er ríkt að vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum. Vegna þess hve það er kalk- og járnríkt hentar það mjög vel fyrir fólk sem borðar ekki kjöt eða mjólkurvörur. Einn bolli af spínati inniheldur dagskammt fullorðinnar manneskju af K-vítamíni og mikið magn A-vítamíns, C-vítamíns, magnesíums og fólínsýru. K-vítamín er sérlega gott til að viðhalda sterkum beinum auk þess sem það hjálpar líkamanum að nýta kalk úr fæðunni. Járn gefur líkamanum orku og er gott fyrir blóðrásina. Rannsóknir hafa sýnt að spínat getur lækkað blóðþrýsting og bætt starfsemi hjartans.



Grænkál

Grænkál líkt og spínat er ríkt að A-, C- og K-vítamínum. Grænkál er talið gott fyrir fólk með hátt kólesteról. Rannsókn sem gerð var á karlmönnum með hátt kólesteról sýndi að eftir að þeir höfðu drukkið 150 millilítra af grænkálssafa daglega í tólf vikur lækkaði slæma kólesterólið, LDL um 10% en góða kólestersólið HDL hækkaði um 27%. Rannsóknir hafa líka sýnt að neysla grænkálssafa lækkar blóðþrýsting og blóðsykur.



Brokkólí

Brokkólí er af krossblómaætt, líkt og grænkál, blómkál og hvítkál. Neysla á grænmeti af krossblómaætt er talin geta minnkað líkur á krabbameini. Grænmeti af krossblómaætt inniheldur efnið sulforaphane, en rannsóknir á dýrum hafa sýnt að efnið dregur úr stærð og fjölda brjóstakrabbameinsfrumna og hindrar vöxt á krabbameinsæxlum. Einn bolli af brokkólíi inniheldur ráðlagðan dagskammt af K-vítamíni og tvöfaldan dagskammt af C-vítamíni.



Grænar baunir

Grænar baunir eru orkuríkar. Þær innihalda mikið af trefjum og prótínum. Auk þess eru þær ríkar að A-, C- og K-vítamínum og sumum tegundum B-vítamína. Vegna hás trefjainnihalds eru grænar baunir góðar fyrir meltinguna. Þær eru prótínríkar og eru þess vegna góður kostur fyrir grænmetisætur og grænkera.



Sætar kartöflur

Sætar kartöflur eru taldar góðar fyrir fólk með sykursýki vegna þess að þær hafa lágan sykurstuðul og eru trefjaríkar. Þær eru því taldar geta komið jafnvægi á blóðsykurinn.

Meðalstór sæt kartafla inniheldur vel ríf lega ráðlagðan dagskammt fullorðinna af A-vítamínum. Einnig inniheldur hún fjórðung ráðlagðs dagskammts af C- og B6-vítamínum og 12% af ráðlögðum dagskammti af kalíumi.



Rauðrófur

Rauðrófur eru ríkar að kalíumi og fólinsýru. Rauðrófur og rauðrófusafi eru mjög holl fyrir hjartað. Rannsóknir sýna að rauðrófusafi getur lækkað blóðþrýsting verulega. Neysla á rauðrófum er mjög góð fyrir fólk með sykursýki. Rauðrófur inniheldur alfa lipóín sýru sem er talin geta haft jákvæð áhrif á taugavandamál tengd sykursýki.



Gulrætur

Gulrætur innihalda fjórfaldan dagskammt fullorðinna af A-vítamínum. A-vítamín eru mjög góð fyrir sjónina. Til eru rannsóknir sem benda til að gulrótarsafi geti drepið, eða hindrað vöxt hvítblæðisfrumna.



Sýrt grænmeti

Sýrt grænmeti inniheldur sömu næringarefni og ósýrt grænmeti en inniheldur auk þess þó nokkuð af góðgerlum. Góðgerlar eru taldir stuðla að heilbrigðri þarmaflóru. Það grænmeti sem gott er að sýra er til dæmis hvítkál, gúrkur, gulrætur og blómkál.



Tómatar

Tómatar innihalda mikið af kalíumi og C-vítamíni. Tómatar innihalda einnig lýkópen sem er öflugt andoxundarefni. Rannsóknir hafa sýnt að lýkópen getur minnkað líkurnar á krabbameini í skjaldkirtli. Einnig hafa rannsóknir sýnt að neysla á tómötum getur minnkað líkurnar á kölkun í augnbotnum.



Hvítlaukur

Hvítlaukur eru náttúrulegt sýklalyf. Nokkurra ára gömul rannsókn hefur sýnt að ákveðið efnasamband í hvítlauk virkar betur gegn kampýlóbakter bakteríu en tvö vinsæl sýklalyf.



Laukur

Laukur er ríkur að C-vítamíni, B6-vítamíni og mangani. Laukur inniheldur súlfúr-sambönd sem talið er að geti veitt vörn gegn krabbameini. Rannsóknir hafa einnig sýnt að karlmenn sem borða mikið af lauk, eða skyldu grænmeti eins og til dæmis hvítlauk, eru í minni hættu á að fá blöðruhálskirtilskrabbamein.



Alfalfa spírur

Í alfalfa spírum er mikið af jurtaefnum sem talin eru hafa góð áhrif á heilsuna. Auk þess eru alfalfa spírur ríkar að K-vítamíni. Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að alfalfa spírur geta mögulega minnkað bólgur og haft andoxunaráhrif.



Paprikur

Paprikur innihalda mikið af C-vítamíni, fólínsýru og betakarótíni sem líkaminn breytir í Avítamín. Paprikur eru einnig ríkar að andoxunarefnum, meðal annars lúteini sem verndar sjónina.



Blómkál

Blómkál er trefjaríkt og inniheldur mikið af C- og K-vítamíni. Blómkál inniheldur, líkt og brokkólí, efnið sulforaphane sem er talið geta hindrað vöxt krabbameinsfrumna.



Þari

Þari er ein fárra fæðutegunda úr plönturíkinu sem innihalda ómega-3, docosahexaenoic og eicasopentaenioc fitusýrur. Þessar fitusýrur eru mjög mikilvægar fyrir heilsu fólks og finnast aðallega í kjöti og mjólkurvörum. Það er misjafnt eftir þarategundum hvaða vítamín og steinefni þær geyma en flestar eru ríkar af joði sem er mikilvægt fyrir starfsemi skjaldkirtilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×