Handbolti

Nánast hlutkesti um sumar stöður í EM hópnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari segir að það bíði sín erfitt verkefni að velja þá 12 leikmenn sem mæta Dönum í fyrsta leiknum á Evrópumótinu í handbolta í Malmö 10. janúar.

Íslendingar mættu Svíum í tveimur leikjum um helgina og var landsliðsþjálfarinn ánægður með ferðina.

„Niðurstaðan eftir þessa tvo leiki er að við vinnum Svía, sem eru eitt af bestu landsliðum heims, á þeirra heimavelli,“ sagði Guðmundur í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þegar Guðmundur tók við landsliðinu setti hann á fót B-liði og fengu níu leikmenn sem voru í því liði fyrir einu og hálfu ári að spreyta sig um helgina.

„Ég er rosalega ánægður með þróunina á þessu.“

„Við getum í sjálfu sér unnið hvaða lið sem er í dag, en við erum ekki komnir á þann stað að við séum búnir að ná upp nógu góðum stöðugleika í þessu.“

Það er aðeins einn vináttuleikur fram undan fyrir Evrópumótið og bíður erfitt val að velja hópinn. Guðmundur segir að það þurfi nánast hlutkesti til þess að velja um í sumum stöðum. 

„Ég þurfti að fá svör og ég tel mig hafa fengið þau í ákveðnum tilvikum.“

„Í mörgum stöðunum eru leikmennirnir frábærir, ég þarf að púsla því saman hvað hentar hverju sinni, hvað hentar inn í hópinn.“

„Það hefur verið erfitt frá því ég kom aftur til starfa að verja hópinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×