Íslenski boltinn

FH vígði Skessuna á 90 ára afmælinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fimleikafélag Hafnarfjarðar hélt í dag upp á 90 ára afmæli sitt. Við það tilefni var nýtt knatthús, Skessan, vígt í Kaplakrika.

„Afmælisbarninu heilsast ótrúlega vel. Það er öðruvísi með íþróttafélög en mannslíkamann; þau batna eftir því sem árunum fjölgar,“ sagði Viðar Halldórsson, formaður FH, í samtali við Arnar Björnsson í Sportpakkanum.

Viðar segir að Skessan, sem er knatthús í fullri stærð, gjörbreyti allri aðstöðu fyrir FH-inga. Framkvæmdir við húsið hófust fyrir ári síðan.

„Heildarkostnaður við húsið verður í kringum 820 milljónir. Í næstu viku verður farið í viðbyggingu við húsið, þar sem eru búningsklefar og fleira. Vonandi verður það tilbúið undir áramótin,“ sagði Viðar. 

Aðspurður um hver staða FH á 100 ára afmælinu verði kvaðst Viðar bjartsýnn.

„Ég held að FH verði öflugra félag. Svæðið verður komið í fulla notkun og enn glæsilegra en það er í dag. Vonandi verður barna- og unglingastarfið öflugt sem er aðalatriðið,“ sagði Viðar.

Fréttina í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×