Yfirmaður netglæpadeildar lögreglunnar segir það hafa færst í aukana að upplýsingar sem fólk gefi upp á netinu um sig séu notaðar í aðra brotastarfsemi, til dæmis mansal og vændi. Kreditkortanúmer, heimilisföng eða nöfn séu þannig notuð til að bóka hótelherbergi eða kaupa flugmiða fyrir starfsemina.
Daði Gunnarsson, yfirmaður netglæpadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir varhugavert að gefa ókunnugum aðilum á netinu upplýsingar um greiðslukort sín og vegabréf. Mörg dæmi séu um að reynt sé að komast yfir slíkar upplýsingar hjá Íslendingum.
„Á hverjum einasta degi er stanslaust verið að reyna svindla á einhverjum á netinu og það eru endalaust af tilkynningum að koma til okkar, bæði fyrirtæki og einstaklingar, þar sem er verið að reyna svindla. Það er annaðhvort verið að reyna fá peninga, hjá börnum er verið að reyna fá barnaníðsefni“
Í nýútkominni skýrslu Europol þar sem kastljósinu er beint að netglæpum segir að svokallaðar vefveiðar hafi færst í aukana, en þar er verið að falast eftir upplýsingum af öllu tagi, til dæmis er varðar greiðslukort og vegabréf.
Daði segir að þetta eigi einnig við á Íslandi. Tilvik hafi komið upp þar sem þjófar hafa komist yfir kortanúmer og nýtt þau til að leigja hótelherbergi og kaupa flugmiða. Þessi fjármunabrot geti tengst annarri brotastarfsemi.
„Eins og ólöglegan flutning fólks á milli landa, mansal eða vændi eða eitthvað slíkt.“
„Við höfum verið að fá tilkynningar þar sem fólk er að gefa upp upplýsingar og þá höfum verið að benda þeim á að hafa samband við þjóðskrá og sýslumann út af þessum skjölum sem fólk er að missa út til að hægt sé að koma í veg fyrir að verið sé að misnota þessi skjöl erlendis,“ segir Daði Gunnarsson, yfirmaður netglæpadeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Innlent