Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vígði á dögunum nýtt reykofnaskýli í fiskimannabænum Tombo í Síerra Leóne sem er hluti af samstarfsverkefni Íslands með þarlendum stjórnvöldum. Ráðherra fór einnig í vettvangsskoðun og kynnti sér metnaðarfullt samstarfsverkefni með UNICEF í vatns-, salernis- og hreinlætismálum, en með verkefninu á bæði að veita hreinu vatni til fjörutíu þúsund íbúa á svæðinu, auk þess sem vatnið nýtist til verðmætaaukningar við fiskvinnslu.
Á hátíðarstundum í Síerra Leóne, líkt og annars staðar í Afríku, flytja háttsettir gestir ræður og boðið er upp á menningarleg dansatriði og hljóðfæraslátt, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Við vígsluna í Tombo voru meðal annars viðstaddir þrír innlendir ráðherrar, auk íslenska utanríkisráðherrans, og á fremsta bekk sátu höfðingjar, bæði frá borg og héraði.
„Já, þetta var stór dagur, mikil hátíðahöld, margir ráðherrar og leiðtogar af svæðinu, auk kvennanna sem sjá um fiskvinnsluna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Það er auðvitað byltingarkennt að hér séu að koma reykofnar með okkar stuðningi sem gera það að verkum að konurnar þurfa ekki lengur að vinna við skelfilegar aðstæður, oft með börnin sín. Konurnar nota miklu minni orku og gæði fisksins eru miklu meiri. Grunnurinn að þessu er líka annað verkefni, sem við höfum komið að, sem er meira að segja á okkar mælikvarða frekar stórt, en það er vatnsveita fyrir fjörutíu þúsund íbúa, fleiri en í Kópavogi. Það er ánægjulegt að sjá þakklætið en ekki síður að sjá að okkar verkefni með alþjóðlegum stofnunum skiptir virkilega máli og mun gera líf fólksins miklu betra,“ sagði ráðherra.
Guðlaugur Þór klippti á borða í nýbyggingu reykofnaskýlis og opnaði þar með formlega nýja reykofna á hafnarsvæðinu í Tombo. Íslensk sérþekking og hugvit eru leiðandi í uppbyggingu og framkvæmd verkefna sem Íslendingar styðja í þessum útgerðarbæ. Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna sá um að byggja upp getu og þjálfa starfsfólk en Matís sá um hönnun á nýrri reykofnatækni. Tæknin leiðir til þess að hægt er að framleiða fiskafurðir í betri gæðum og auka bæði verðmæti aflans og nýtingu. Annar kostur þessarar tækni felst í því að einungis um 20 prósent er notað af þeim eldiviði sem áður þurfti við reykingu á fiski í Síerra Leóne, auk þess sem tæknin er umhverfisvænni. Þá er ótalinn einn mikilvægasti kosturinn sem lýtur að heilsu kvennanna sem reykja fiskinn: þær þurfa nú ekki lengur að standa í reyknum, oft með börn á bakinu, og anda honum að sér, með afleitum áhrifum á öndunarfæri og augu.
Skortur á rafmagni í Síerra Leóne er meginástæða þess að fiskur er fyrst og fremst reyktur í landinu, en talið er að 80 til 90 prósent af öllu sjávarfangi sé reykt. Innleiðing nýrrar, umhverfisvænnar og heilsusamlegrar fiskireykingatækni er því mikið framfaraskref, auk þess sem hvorki var að finna hreint vatn né salernisaðstöðu á þessum löndunarstað áður en íslenska verkefnið hófst.
Í verkefninu felst einnig þjálfun og uppbygging á getu ráðuneyta og stofnana til að auka skilvirkni og sjálfbærni í stjórnun fiskveiða. Þá er hluti af verkefninu að bæta aðgengi að fjármagni fyrir konur í sjávarútvegi og framlög eru veitt í baráttuna gegn mengun í hafi og hreinsun strandlengjunnar kringum löndunarstöðvar.
Utanríkisráðuneytið hóf að styðja þetta þróunarsamvinnuverkefni í Síerra Leóne á síðasta ári sem sérstaklega er tengt heimsmarkmiði númer fjórtán um sjálfbæra nýtingu auðlinda og verndun hafsins. Verkefnið var undirbúið í náinni samvinnu við Alþjóðabankann og stjórnvöld og byggist á samstarfi Íslands við Alþjóðabankann í fiskimálum. Talið er að Síerra Leóne hafi umtalsverða möguleika á að byggja upp atvinnulíf og störf tengd fiskveiðum, enda góð fiskimið undan ströndum landsins. Töluverður hluti aflans er þó óskráður og/eða veiddur með ólöglegum hætti af erlendum fiskiskipum.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.
Heimsmarkmiðin