Sport

Bardagi Diaz og Masvidal er í uppnámi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verða margir svekktir ef ekki verður af bardaga Diaz og Masvidal. Bardaginn sem UFC-unnendur báðu um.
Það verða margir svekktir ef ekki verður af bardaga Diaz og Masvidal. Bardaginn sem UFC-unnendur báðu um. vísir/getty
Nate Diaz gaf það út í gær að hann myndi ekki berjast gegn Jorge Masvidal í New York þann 2. nóvember þar sem lyfjapróf hjá honum hafi komið óeðlilega út. MMA-heimurinn trúir því ekki sem er að gerast.

Diaz segir reyndar að þetta sé algjört kjaftæði enda borði hann eingöngu náttúrulega fæðu. Hann gefur í skyn að verið sé að reyna að bregða fyrir sig fæti.

Það á að hafa verið hátt magn af ótilgreindu efni í lyfjaprófi Diaz sem ku hafa komið úr skemmdu fæðubótarefni.





Það væri mjög óvænt ef Diaz hefði fallið á lyfjaprófi og meira að segja andstæðingur hans, Masvidal, efast ekki um að Diaz sé hreinn. Hann segir að bardaginn muni fara fram sama hvað lyfjaeftirlitið segi.





UFC er að skoða málið og nú í morgun var ekki búið að blása bardagann af. USADA lyfjaeftirlitsstofnunin hefur heldur ekki sett Diaz í bann.

Það er aftur á móti mjög áhugavert að Diaz segi að hann hafi verið beðinn um að halda niðurstöðu lyfjaprófsins leyndu. Hann vill ekki taka þátt í slíku kjaftæði eins og lesa má hér að ofan.

Þetta mál minnir svolítið á mál Neil Magny frá því í maí. Þá fundust agnir af óeðlilegu efni sem líka er talið að hafi komið úr skemmdu fæðubótarefni. Magny var ekki dæmdur í bann.

Ef Diaz berst ekki mun UFC samt ætla að koma Masvidal í búrið. Heimildir bandarískra fjölmiðla herma að Leon Edwards hafi verið greitt fyrir að halda sér í formi ef eitthvað kæmi upp á.

Svo hefur meistarinn Kamaru Usman boðið sig fram í að berjast ef á þarf að halda. Menn hafa almennt takmarkaða trú á því að hann myndi standa við þau stóru orð.

Þeir bjartsýnustu vonast svo til þess að Conor McGregor stígi inn en hann boðaði endurkomu sína í Rússlandi í gær.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×