Viðskipti innlent

Minni arðsemi Arion banka á þriðja ársfjórðungi

Kjartan Kjartansson skrifar
Afkoma Arion var undir væntingum og er það rakið til niðurfærslna á félögum sem bankinn reynir að selja.
Afkoma Arion var undir væntingum og er það rakið til niðurfærslna á félögum sem bankinn reynir að selja. Vísir/Vilhelm
Arðsemi eigin fjár samstæðu Arion banka var um 0,7 prósentustigum minni á þriðja ársfjórðungi en á sama tímabili í fyrra og nam hagnaðar hennar um 800 milljónum króna, um 300 milljónum minna en í fyrra. Í árshlutareikningi bankans kemur fram að hagnaður af áframhaldandi starfsemi hafi þó hækkað frá fyrra ári.

Í tilkynningu um árshlutareikninginn sem bankinn sendi frá sér í dag kemur fram að arðsemi eigin fjár var 1,6% á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 2,3% á sama tímabili árið 2018.

„Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 3,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og 8,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum 2019, samanborið við 1,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2018 og 6,8 milljarðar króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi var um 8,5% á þriðja ársfjórðungi og 6,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Dótturfélögin Valitor Holding, Stakksberg og TravelCo eru skilgreind sem eignir til sölu.

Heildareignir samstæðunnar námu 1.213 milljörðum króna í lok september 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 21,3 milljarða króna eða 3% og er það sagt í samræmi við auknar áherslur bankans á arðsemi fremur en lánavöxt. Eigið fé nam 196 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, var 23,6% í lok september 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, nam 21,6% í lok september 2019, samanborið við 21,2% í árslok 2018,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×