Íslenski boltinn

Þórdís Hrönn til KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórdís Hrönn í leik með Stjörnunni.
Þórdís Hrönn í leik með Stjörnunni. vísir/eyþór
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við KR. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Fyrr í dag var Ana Victoria Cate kynnt sem leikmaður KR. Vesturbæjarliðið hefur einnig samið við Láru Kristínu Pedersen og ljóst er að stefnan er sett hátt þar á bæ.

Á síðasta tímabili lék Þórdís sem lánsmaður með Þór/KA í Pepsi Max-deild kvenna. Hún lék 13 leiki með liðinu og skoraði tvö mörk. Fyrri hluta tímabils lék Þórdís með Kristianstad í Svíþjóð.

Þórdís hóf ferilinn með Breiðabliki og varð bikarmeistari með liðinu 2013. Á árunum 2014 og 2015 lék hún með Älta í sænsku B-deildinni. Þórdís sneri aftur heim 2016 og lék með Stjörnunni í þrjú tímabil. Hún varð Íslandsmeistari með Garðabæjarliðinu 2016.

Þórdís hefur leikið tvo A-landsleiki og fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.

KR endaði í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili og komst í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Selfossi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×