Erlent

Fimmtán látnir eftir árás í suðurhluta Taílands

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi. Alls hafa um sjö þúsund manns látið lífið í vopnuðum átökum taílenskra yfirvalda og aðskilnaðarhópa í héruðunum Yala, Pattani og Narathiwat síðustu fimmtán árin.
Frá vettvangi. Alls hafa um sjö þúsund manns látið lífið í vopnuðum átökum taílenskra yfirvalda og aðskilnaðarhópa í héruðunum Yala, Pattani og Narathiwat síðustu fimmtán árin. epa
Að minnsta kosti fimmtán eru látnir eftir árásir gegn eftirlitsstöðvum öryggissveita í Yala-héraði í suðurhluta Taílands í nótt.

Talsmenn taílenskra yfirvalda segja fórnarlömbin sjálfboðaliða í öryggissveitum sem hafi sinnt eftirliti vegna uppþota múslima í þremur syðstu héruðum landsins. Taílenski herinn segir múslimska uppreisnarmenn hafa staðið fyrir árásinni.

Herforinginn Pramote Prom-in segir árásina þá stærstu og mannskæðustu á svæðinu mörg ár og að árásarmennirnir hafi tekið vopn af sjálfboðaliðunum og eftirlitsstöðinni áður en þeir lögðu á flótta.

Alls hafa um sjö þúsund manns látið lífið í vopnuðum átökum taílenskra yfirvalda og aðskilnaðarhópa í héruðunum Yala, Pattani og Narathiwat síðustu fimmtán árin.

Aðskilnaðarhóparnir saka taílenska ríkið um að reyna bæla niður malay-menninguna í landinu, sen stór hluti íbúa í héruðunum þremur eru múslimar og var þar sérstakt soldánaríki á sínum tíma sem var innlimað í Taíland árið 1909.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×