Erlent

Sex börn banda­rískra mor­móna í hópi látinna í árás í Mexíkó

Atli Ísleifsson skrifar
Stríð eiturlyfjahringja hefur staðið í Mexíkó um langt skeið.
Stríð eiturlyfjahringja hefur staðið í Mexíkó um langt skeið. Getty
Að minnsta kosti níu bandarískir ríkisborgarar, þar af sex börn, eru í hópi látinna eftir árás vígamanna mexíkósks eiturlyfjahrings í norðurhluta landsins.

Fórnarlömb árásarinnar voru í LeBaron fjölskyldunni svokölluðu, klofningshóps úr samfélagi mormóna, sem fluttist til Mexíkó fyrir nokkrum áratugum.

Í frétt BBC segir að auk barnanna sex hafi þrjár konur látið lífið í árásinni, mæður barnanna, en fólkið ferðaðist í bílalest. Að sögn fjölskyldu fólksins eiga tvö börnin að hafa verið innan við árs gömul.

Öryggismálaráðherra Mexíkó segir að svo virðist sem að ráðist hafi verið á hópinn fyrir mistök, en eiturlyfjahringir hafa lengi átt í átökum á svæðinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um málið á Twitter þar sem hann segir LeBaron-hópinn vera yndislega fjölskyldu og vini sem hafi lent í miðjum átökum tveggja eiturlyfjahringja. Sagði hann Bandaríkin reiðubúin að aðstoða við að ná tökum á ástandinu í Mexíkó þar sem vandamál og ítök eiturlyfjahringja eru mjög mikil.

Bílalestin var á leið frá Bavispe í Sonora og leiðinni til La Mora í Chihuahua-ríki þegar árásin var gerð. Hafi árásarmennirnir setið fyrir þeim í Bavispe.

Búið var að kveikja í bíl fólksins og fannst hann í vegarkanti ásamt líkamsleifum fólksins. Hafa borist fréttir af því að einhverjir hafi verið skotnir þar sem þeir reyndu að flýja af vettvangi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá stjórnvöldum í Chihuahua og Sonora segir að rannsókn verði gerð á árásinni og öryggissveitir sendar á vettvang. Claudia Pavlovich Arellano, ríkisstjóri Sonora, lýsti árásarmönnunum sem „skrímslum“ á Twitter-síðu sinni.

Börnin sem létust voru nokkurra mánaða gamlir tvíburar, ellefu, níu, sex og fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×