Innlent

Biskup endursendir dularfullt bréf séra Þóris

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Vísir/Vilhelm
Ekkert verður af því að kirkjuráð opni bréf frá séra Þóri Stephensen ári eftir andlát hans. Kirkjuráð kom saman á fundi í dag og komst að þeirri niðurstöðu að hið rétta í stöðunni væri að endursenda bréfið. Þetta staðfestir Pétur G. Markan, samskiptastjóri Þjóðkirjkunnar, í samtali við fréttastofu en Mbl.is greindi fyrst frá.

Þann 16. október síðastliðinn var bréf lagt fyrir fund kirkjuráðs sem merkt var með orðunum trúnaðarmál. Umslagið barst Agnesi M. Sigurðardóttur bisku í september og voru fyrstu viðbrögð kirkjuráðs við bréfinu að ósk séra Þóris yrði virt. Sú afstaða hefur breyst en biskup er forseti kirkjuráðs.

Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur.
Þórir sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins á dögunum að ekki væri óalgengt  að fólk legði fram heimildir sem ekki mætti nálgast fyrr en að höfundi látnum.

Greint var frá því í fjölmiðlum á síðasta ári að séra Þórir hafi viðurkennt að hafa brotið kynferðislega á tólf ára gamalli stúlku fyrir um 65 árum.

Þórir starfaði sem prestur um áratugaskeið en árið 2015, eftir að Þórir lét af störfum, leitaði þolandinn, þá í kringum sjötugt, til fagráðs kirkjunnar um meðferð kynferðisbrota og óskaði eftir hjálp.

Fagráðið brást við beiðni þolandans og fór fram sáttafundur sem Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands sat, að ósk þolandans.

Í samtali við fréttastofu á síðasta ári sagði Þórir um málið að hann hafi viðurkennt brot sitt, iðrast þess alla tíð og beðist fyrirgefningar, bæði fyrir guði og mönnum. 


Tengdar fréttir

Segist hafa beðist fyrirgefningar fyrir guði og mönnum

Séra Þórir Stephensen viðurkennir að hafa brotið kynferðislega á tólf ára gamalli stúlku fyrir um 65 árum. Hann kveðst hafa iðrast brota sinna alla tíð en hann hafi beðist fyrirgefningar bæði fyrir guði og mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×