Enski boltinn

Fyrrverandi markverði Hattar hrósað fyrir viðbrögð við hatursorðræðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Allsop lék vel með Hetti sumarið 2012.
Ryan Allsop lék vel með Hetti sumarið 2012. vísir/getty
Ryan Allsop, fyrrverandi markvörður Hattar, fékk hrós frá hinsegin samtökunum Stonewall á Englandi fyrir að greina frá hatursorðræðu í garð samkynhneigðra sem hann varð fyrir í leik Wycombe Wanderers og Tranmere Rovers í ensku C-deildinni í gær.

Eftir leikinn sagði Allsop að hann og dómari leiksins, John Busby, hefðu orðið fyrir barðinu á níðsöngvum stuðningsmanna Tranmere.

Stonewall-samtökin voru ánægð með viðbrögð Allsops og hrósuðu honum fyrir að tilkynna níðið.

„Að tækla hatursorðræðu er hluti af því að láta hinsegin fólki líða vel í íþróttinni,“ sagði í yfirlýsingu frá Stonewall.

„Rannsóknir okkar sýna að rúmlega helmingur bresku þjóðarinnar finnst mikilvægt að taka á hatursorðræðu í garð hinsegin fólks á íþróttaviðburðum.“

Einn maður var handtekinn í gær, grunaður um níðið, samkvæmt lögreglunni á Merseyside.

Leið vel á EgilsstöðumAllsop lék með Hetti á Egilsstöðum fyrri hluta sumars 2012. Hann varði mark Hattar í átta leikjum í 1. deildinni og þremur í Borgunarbikarnum og stóð sig frábærlega.

„Ef ég á að vera heiðarlegur vissi ég ekki mikið um hvert ég væri að fara þegar ég lagði af stað til Íslands. Ég vildi bara prófa eitthvað öðruvísi og spila fótbolta. Þegar upp var staðið get ég ekki ímyndað mér að þetta gæti heppnast betur,“ sagði Allsop í samtali við Vísi eftir að hann lék sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í nóvember 2015.

„Það skemmtilega við samfélagsmiðla er að ég get fylgst með vinum mínum á Íslandi. Ég verð ævinlega þakklátur öllum á Egilsstöðum fyrir gestrisnina. Ég get ekki talað nógu vel um fólkið þarna. Eysteinn Hauksson, þjálfarinn minn, var maður sem hjálpaði mér mikið. Ég á honum mikið að þakka fyrir að treysta mér og gefa mér þetta tækifæri.“

Allsop, sem er 27 ára, hefur farið víða á ferlinum. Undanfarin tvö tímabil hefur hann leikið með Wycombe.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×