Handbolti

Uppselt á fyrsta leik Íslands á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sérsveitin verður væntanlega í góðu stuði í Malmö í janúar.
Sérsveitin verður væntanlega í góðu stuði í Malmö í janúar. vísir/bára
Gengið hefur vel að selja miða á leiki á Evrópumóti karla í handbolta 2020. Austurríki, Noregur og Svíþjóð halda mótið í sameiningu.

Nú þegar er uppselt á nokkra leiki á EM, m.a. leik heimsmeistara Dana og Íslendinga í Malmö 11. janúar. Þetta er fyrsti leikurinn í E-riðli.

Malmö Arena, þar sem allir leikirnir í E-riðli fara fram, er næststærsta höll í Svíþjóð á eftir Ericsson Globe í Stokkhólmi. Hún tekur tæplega 13.000 manns í sæti.

Milliriðill 2 fer einnig fram í Malmö. Í honum verða væntanlega Danmörk, Svíþjóð og Noregur og því má búast við miklum fjölda áhorfenda á leikjunum í milliriðlinum.

Auk Íslands og Danmerkur eru Ungverjaland og Rússland í E-riðli. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×