Formaður ASÍ segir að samúðin sé hjá namibísku þjóðinni eftir þær ásakanir sem komu fram á RÚV í gær um viðskiptahætti Samherja þar í landi. Formaður Sjómannasambandsins segir að það eitt að vera sakaður um ólöglega viðskiptahætti hafi skaðleg áhrif á orðstýr landsins.
Forsvarsmenn verkalýðsforystunnar lýstu bæði undrun og sorg þegar fréttastofa ræddi við þá í dag um viðbrögð eftir fréttaskýringarþáttinn Kveik í gær um vinnubrögð Samherja í Afríku. Drífa Snædal formaður Alþýðusambandsins sagði sinn hug hjá namibísku þjóðinni.
„Samúð okkar er með þjóð í veikri stöðu eins og namibíska þjóðin er og að alþjóðlegt fyrirtæki hafi notað sér það er svo viðbjóðslegt í þessu máli,“ voru fyrstu viðbrögð Drífu vegna málsins í dag.
„Starfsfólk Samherja á Akureyri er náttúrulega líka að velta fyrir sér sinni stöðu en ég tel ekki tilefni til að óttast um hana á þessum tímapunkti,“ segir Drífa.
Aðspurð um hvort rannsaka þurfi viðskiptahætti Samherja hér á landi svaraði Drífa:
„Auðvitað gefur það tilefni til að rannsaka viðskiptahætti fyrirtækisins hér á landi þegar það haga sér svona erlendis. En auðvitað er fyrsta skrefið að rannsaka þær ásakanir sem þegar hafa komið fram. Mikilvægi eftirlitsstofnanna með svona stórfyrirtækjum er gríðarlegt svo þau fari ekki að hafa óeðlileg áhrif á lýðræði og örlög vinnandi fólks.“
Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambands Íslands var sorgmæddur.
„Maður er bara rosalega sleginn yfir þessu öllu og þykir rosalega leitt hvernig farið er með fólk þarna niður frá. Það eitt að vera sakaður um svona er grafalvarlegt mál, fyrir þá og okkur öll og hefur eitt og sér skaðleg áhrif á orðstýr þjóðarinnar. Ef þeir eru sekir þá er það svakalegt en við skulum bíða og sjá. Samherji þarf að fá að bera hönd yfir höfuð sér. Það er augljóst fyrsta skref að rannsaka þessi mál ofaní kjölinn,“ sagði Valmundur.
Innlent