Íslenski boltinn

Skoraði í síðasta deildarleiknum og síðasta landsleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði bæði í síðasta deildarleiknum og síðasta landsleiknum á glæsilegum ferli.

Markadrottningin úr Vestmannaeyjum tilkynnti í dag að hún hefði lagt skóna á hilluna.

Á síðasta tímabili skoraði Margrét Lára 15 mörk í 17 leikjum í Pepsi Max-deild kvenna.

Fimmtánda mark hennar á tímabilinu og jafnframt síðasta deildarmark hennar á ferlinum kom í 3-2 sigri Vals á Keflavík í lokaumferðinni 21. september. Með sigrinum tryggði Valur sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil síðan 2010.

Margrét Lára skoraði alls 207 mörk í 143 leikjum í efstu deild á Íslandi. Hún er önnur tveggja leikmanna sem hafa skorað 200 mörk eða meira í efstu deild kvenna hér á landi. Hin er Olga Færseth sem skoraði 269 mörk.

Margrét Lára lék sinn 124. og síðasta landsleik þegar Ísland rúllaði yfir Lettland, 0-6, í undankeppni EM 8. október. Hún kom inn á sem varamaður á 66. mínútu og skoraði sjötta mark íslenska liðsins í uppbótartíma.

Margrét Lára skoraði einnig eftir að hafa komið inn á sem varamaður í fyrsta landsleiknum sínum, 14. júní 2003. Þá var hún aðeins 16 ára.

Eyjakonan skoraði alls 79 mörk fyrir íslenska landsliðið. Enginn landsliðsmaður Íslands, hvorki í karla- eða kvennaflokki, hefur skorað fleiri landsliðsmörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×