Handbolti

Seinni bylgjan: „Körfuboltaáhugamenn sem halda að þeir hafi vit á handbolta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Gunnar Einarsson vill að leikið verði til þrautar í öllum leikjum í íslenskum handbolta. Halldór Sigfússon er ekki á sama máli.

Jafntefli í handbolta voru meðal umræðuefna í Lokaskotinu í Seinni bylgjunni í gær. Þar var einnig rætt um hvaða lið sé líklegast til að verða Íslandsmeistari og hvaða lið þurfa að styrkja sig þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður á ný.

Heitustu umræðurnar sköpuðust þó um jafntefli í handbolta.

„Af hverju ekki? Ég þoli ekki jafntefli,“ sagði Jóhann Gunnar.

„Framlenging er söluvæn vara. Ókosturinn við að nota þetta í deildakeppninni er að þetta tekur kannski sjarmann úr úrslitakeppninni. Ég var að hugsa um að þú værir alltaf öruggur með eitt stig en sá sem vinnur fær tvö stig. Þetta er mjög söluvænt og gengur upp í körfunni.“

Þegar Jóhann Gunnar minntist á körfubolta tók Halldór til máls.

„Nákvæmlega, þetta er punkturinn. Þeir sem tala um jafntefli í handbolta og það eigi að breyta því eru körfuboltaáhugamenn sem halda að þeir hafi vit á handbolta. Þetta eru svo ólíkar íþróttir,“ sagði Halldór og rifjaði upp þegar leikið var til þrautar í deildakeppni á Íslandi. Hann var ekki hrifinn af því.

„Þetta var reynt eitt tímabil þegar ég var að spila. Það var ömurlegt og bara kjánalegt.“

Lokaskotið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×