Erlent

Þrumuræða Karrenbauer á landsþingi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Annegret Kramp-Karrenbauer, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi.
Annegret Kramp-Karrenbauer, leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi. getty/Michele Tantussi
Annegret Kramp-Karrenbauer, leiðtogi Kristilegra demókrata, skoraði gagnrýnendur sína á hólm við setningu landsþings flokksins í Leipzig í gær.

„Ef þið viljið, þá skulum við opna þessa umræðu í dag. Útkljáum þetta mál, hérna, núna, í dag,“ sagði hún í ávarpi sínu. „En ef þið eruð á þeirri skoðun að við ættum að fara saman í þetta ferðalag, þá skulum við bretta upp ermar og halda áfram.“

Kramp-Karrenbauer, sem hefur leitt flokkinn í eitt ár, hefur verið harðlega gagnrýnd innanflokks eftir marga kosningaósigra á árinu, bæði í einstökum fylkjum og kosningum til Evrópusambandsþingsins. Búist var við því að reynt yrði að steypa henni á landsþinginu en í gær virtist hún þó njóta mikils stuðnings og fékk sjö mínútna lófaklapp þúsund þinggesta eftir ávarp sitt. Í ávarpinu viðurkenndi hún að flokkurinn hefði átt erfitt ár en að gagnrýni á flokkssystkini væri ekki leiðin til að rétta fylgið við.

Friedrich Merz, hinn harðorði andstæðingur Kramp-Karrenbauer, tók til máls á eftir henni. Ólíkt því sem búist hafði verið við var hann nokkuð blíður og þakkaði Kramp-Karrenbauer fyrir hugrekki og kraftmikla ræðu. Hann bauð jafnframt fram krafta sína til að móta starf flokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×