Steinþór býr í Mosfellsbænum ásamt unnustu sinni Sigrúnu Sig og dóttur þeirra Ronju Steinþórsdóttir. Hann segir að lífið hafi heldur betur tekið breytingum eftir að Ronja kom í heiminn og það geti eflaust verið erfitt að vera makinn hans.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá held ég að það sé drullu erfitt. Ég er mjög gleyminn og utan við mig en ég er líka bara skemmtilegur og hress. Það er gaman heima hjá okkur, alltaf stemning og lítið þrasað,“ segir Steindi og bætir við að hann sé alltaf að leita heima hjá sér.
„Ég spyr alltaf hvar allt er áður en ég fer að leita sjálfur. Ég veit aldrei hvar neitt er. Það er örugglega frekar þreytandi.“
Ronja kom í heiminn í maí 2014.
„Það breytti mér bara helling. Það breytir öllum að eignast barn og til góðs. Þetta er bara geggjað og í rauninni besta tilfinning í heimi. Það sem ég tek mest eftir að ég er orðinn svo lífhræddur. Ég er mikið að veislustýra og skemmta út um allt land og er farinn að vilja fara á bíl í staðinn fyrir að ferðast í flugvél.“