Innlent

Krist­mundur á Sjávar­borg er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Forsíðumynd bókarinnar Í barnsminni - minningaslitur frá bernskuárum.
Forsíðumynd bókarinnar Í barnsminni - minningaslitur frá bernskuárum. Sögufélag Skagfirðinga

Kristmundur Bjarnason, rithöfundur á Sjávarborg í Skagafirði, er látinn, hundrað ára að aldri. Hann andaðist á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki á miðvikudaginn í síðustu viku.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun. Frá miðri síðustu öld var Kristmundur bóndi á Sjávarborg og stundaði hann ritstörf og fræðimennsku samhliða bústörfum. Hann starfaði lengi sem héraðsskjalavörður Skagfirðinga en lét af því starfi árið 1990.

Kristmundur gaf út fjölda bóka og fræðigreina og var stærstur hluti ritstarfa hans helgaður sögulegum og þjóðfræðileg efni. Er hægt að nefna þar Þorstein á Skipalóni, Sögu Sauðárkróks, Sögu Dalvíkur, Sýslunefndarsögu Skagfirðinga og þannig mætti áfram telja. Kristmundur var sömuleiðis afkastamikill þýðandi og þýddi meðal annars fjölda barna- og unglingabóka Enid Blyton og Stikilsberja-Finn eftir Bandaríkjamanninn Mark Twain.

Fyrir tíu árum gaf Kristmundur úr verkið Amtmaðurinn á einbúasetrinu, ævisögu Gríms Jónssonar, amtmanns á Möðruvöllum. Fyrr á þessu ári gaf svo Sögufélag Skagfirðinga út bernskuminningar hans, Í barnsminni - minningaslitur frá bernskuárum, í tilefni af aldarafmæli höfundarins. Var það Sölvi Sveinsson sem annaðist útgáfuna en Kristmundur ritaði söguna á árunum 2005-2006.

Eiginkona Kristmundar var Hlíf Ragnheiður Árnadóttir sem lést 2013 og eignuðust þau þrjár dætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×