Matur

Aðventumolar Árna í Árdal: Pólskar krókettur

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum. Vísir/Árni

Aðventumolar Árna í Árdal er nýr liður hér á Vísi. Á hverjum degi fram að jólum birtum við uppskrift frá ómissandi aðventuþáttum hans sem sýndir eru á Stöð 2 í desember. Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.  Með einskærri lífsgleði og eldmóð hefur Árni sérstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér.

Hér nær hann svo sannarlega að veita áhorfendum innblástur og töfrar fram bragðgóða og spennandi rétti alla aðventuna. Uppskrift dagsins eru krókettur frá Póllandi. Aðventumolann má sjá hér í spilaranum að neðan en uppskrift og leiðbeiningar er að finna neðar í fréttinni. Aðventumolar Árna í Árdal eru á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 alla daga fram að jólum nema á föstudögum eru þeir sýndir beint á eftir Allir geta dansað.  

Í Póllandi er hefðin að bjóða upp á 12 rétti á aðfangadag, einn fyrir hvern lærisvein Jesú. Enginn réttur inniheldur kjöt og er áherslan á grænmeti og fisk. Uppskriftirnar hér eru frá Magda Kulinska úr Stykkishólmi.

Innihald

Pönnukökur

250 grömm hveiti

½ teskeið salt

2 egg

50 grömm smjör, bráðið

600 millilítrar mjólk



Fylling

200 grömm þurrkaðir villisveppir

500 grömm súrkál

2 laukar, flysjaðir og saxaðir smátt

Salt og nýmalaður pipar

Smá sveppakraftur, má sleppa



Rauðrófusúpa 

500 grömm rauðrófur, flysjaðar og skornar í 2 cm teninga

1 lítri vatn

1 teningur grænmetiskraftur

1 teningur nautakraftur

3 allrahandaber

2 lárviðarlauf

2 hvítlauksgeirar

½ teskeið salt

Vel af nýmöluðum svörtum pipar

1 matskeið eplaedik

1 matskeið sítrónusafi

Leiðbeiningar

Pönnukökur

  1. Setjið hveiti, salt, egg, bráðið smjör og rúman helming af mjólkinni  í skál og hrærið úr kekkjalausa þykka soppu. Bætið svo við restinni af mjólkinni.
  2. Steikið pönnukökurnar á meðalhita þar til gullinbrúnar á annarri hliðinni, snúið þeim við og steikið í skamma stund á hinni hliðinni eða þar til þær eru fullbakaðar.



Fylling

  1. Leggið villisveppina í skál og bætið við vatni þar til flýtur vel yfir þá. Setjið sveppina inn í ísskáp og látið sveppina draga í sig vatnið yfir nótt.
  2. Færið sveppina yfir í lítinn pott ásamt sveppasoðinu sem þeir liggja nú í. Sjóðið sveppina í um 20 mínútur. Gerið það saman við súrkálið.
  3. Brúnið laukinn í smjörinu og olíunni á meðan sveppirnir og súrkálið sjóða. Bætið soðnum sveppunum og súrkálinu á pönnuna og steikið þar til blandan er orðin nokkuð þurr. Smakkið til með salti og nýmöluðum svörtum pipar. Færið blönduna yfir í skál og látið kólna örlítið.
  4.  Setjið nokkrar matskeiðar af fyllingunni á eina pönnuköku. Dreifið úr henni en þó ekki alveg út að jöðrunum. Leggið tvær hliðar pönnukökunnar að miðjunni og rúllið henni svo upp í þéttan sívalning. Endurtakið þetta með hinum pönnukökunum.
  5. Hafið til þrjú ílát: eitt með hveiti, annað með nokkrum slegnum eggjum og það þriðja með góðri brauðmylsnu. Veltið hverri fylltri pönnuköku fyrst upp úr hveitinu, svo upp úr eggjunum og að lokum brauðmylsnunni. Leggið króketturnar á bakka
  6. Hitið um 5 sentímetra lag af bragðmildri olíu í stórum potti eða djúpri pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið nokkrar krókettur í olíuna í einu og steikið þar til þær eru fallega brúnar á lit. Snúið þeim við í olíunni og klárið að elda króketturnar.



Rauðrófusúpa 

  1. Setjið rauðrófurnar í miðlungsstóran pott ásamt, vatninu, grænmetiskraftinum, nautakraftinum, allrahanda, lárviðarlaufum, hvítlauksgeirum, salti og pipar.
  2. Náið upp suðunni yfir háum hita og lækkið svo strax undir. Látið súpuna rétt krauma yfir miðlungslágum hita í um klukkutíma. Látið hana ekki bullsjóða því þá missir hún fallega rauða litinn.
  3. Smakkið súpuna til með eplaediki, sítrónusafa, salti og pipar. Síið súpuna í gegnum sigti og berið fram í fallegri könnu með krókettunum.
  4. Tilvalið er að nýta rauðrófurnar sem eftir sitja í til dæmis salat, ídýfu eða grænmetisbuff.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×