Gert er ráð fyrir að ráðherra leggi fram frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarð á Alþingi næsta vor sem byggi á áherslum nefndarinnar. Í nefndinni um garðinn sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis.
Nefndin leggur til að víðtækt samráð verði haft um stjórnun þjóðgarðsins þar sem sveitarfélög og helstu hagaðilar hafi beina aðkomu. Stjórnunin verði dreifð og aðkoma sveitarfélaga og hagaðila aukin frá því sem þekkst hefur í stjórnsýslu friðlýstra svæða til þessa.

Einnig leggur nefndin áherslu á að Hálendisþjóðgarður efli og styðji við sjálfbæra nýtingu hálendisins um leið og hann grundvallist á sáttmála um að standa vörð um þær merku minjar í náttúrufari og menningu sem einkenna hálendi Íslands.
„Hálendisþjóðgarður verður einstakur þjóðgarður á miðhálendi Íslands þar sem er að finna ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Ég vil þakka nefndinni þeirra frábærlega vel unnu störf sem færa okkur nær því marki að stofna þjóðgarð á miðhálendinu með öllum þeim tækifærum sem því fylgja,“ er haft eftir umhverfisráðherra í tilkynningu.
Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.