Paulus Noa, framkvæmdarstjóri spillingarlögreglunnar ACC í Namibíu, segir í samtali við RÚV að embætti hans hafi verið í sambandi við „þá sem hlut eiga að máli“ í Samherjamálinu hér á landi, aðspurður um það hvort embættið hafi átt í samskiptum við yfirvöld hér á landi.
Hann segir jafnframt að rannsókn þar í landi á Fishrot málinu svonefnda gangi almennt vel og vonast hann til þess að fjölmiðlamenn sem hafi verið viðriðnir málið séu tilbúnir til þess að bera vitni fyrir dómstólum. Hann vildi ekki ekki svara því í samtali við RÚV hvort einhverjir Íslendingar séu grunaðir í málinu.
Lögreglan í Windhoek, höfuðborg Namibíu, handtók í gær tvo einstaklinga sem eru sakaðir um að hafa reynt að hindra framgang rannsóknar á hinu meinta Fishrot spillingarmáli þar í landi.
Kauna Shikwambi, talsmaður lögreglu, staðfesti handtökuna í samtali við miðilinn The Namibian en RÚV greindi fyrst frá íslenskra miðla.
Shikwambi segir við The Namibian að aðilarnir verði ákærðir fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar.
Samkvæmt heimildum namibíska miðilsins voru hinir grunuðu gripnir við það að reyna að taka gögn, harða diska og skotfæri ófrjálsri hendi inn á heimili þar í borg. Umrædd gögn eru sögð tengjast yfirstandandi rannsókn sem beinist meðal annars að meintri mútuþægni namibískra embættismanna í tengslum við úthlutun fiskveiðiheimilda.

